„Ég hef lifað og starfað sem láglaunakona á íslandi frá árinu 2008. Mér líður eins og það ástand sem að við erum látin búa við sé orðið algjörlega óþolandi. Mér finnst, og því fólki sem mannar listann með mér, að sú verkalýðsbarátta sem hefur verið rekin hér, að tími hennar sé einfaldlega liðin. Hún hefur ekki skilað okkur þeim lífskjörum sem við teljum okkur eiga rétt á og við teljum að það sé einfaldlega tímabært að breyta um taktík og breyta um áherslur.“
Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, leikskólastarfsmaður sem sækist eftir formennsku í Eflingu, næst stærsta stéttarfélagi landsins. Sólveig er gestur sjónvarpsþáttar Kjarnans sem frumsýndur verður á Hringbraut í kvöld klukkan 21. Þar verður til umræðu stéttabarátta og kafað verður í hvað það er sem veldur að kaflaskil virðast vera í henni nú um stundir á sama tíma og efnahagslegar aðstæður í íslensku hagkerfi eru sagðar betri en nokkru sinni áður. Auk Sólveigar verður Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gestur þáttarins. Hægt er að sjá brot úr þætti mánaðarins hér að ofan.
Sólveig segir að það sé ekki hægt að sætta sig lengur við að láglaunafólk eigi eitt að bera ábyrgð á því að stöðugleiki haldist á Íslandi með því að samþykkja að lifa lífi sem sé ekki mannsæmandi. „Þessi samfélagslegi samningur sem okkur er gert að lifa undir, hann einfaldlega hentar okkur ekki.“
Láglaunafólki sé gert að búa við mikið óréttlæti í „stéttskiptu arðránssamfélagi“ þar sem það fái laun sem það geti ekki lifað af, þurfi að vinna í fleiri en einni vinnu, geti ekki lagt nokkuð fyrir og geti ekki tryggt efnahagslegt öryggi. Eftir húsnæðismarkaðurinn fór á flug með tilheyrandi verðhækkunum á eignum og leigu hafi staðan síðan versnað mjög mikið. „Við teljum að það sé þörf á miklum breytingum til þess að við séum ekki einfaldlega bara vinnuafl á útsölu. Manneskjur sem njóti fullra réttinda og eigi rétt á góðu og mannsæmandi lífi.“