Heildareignir ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans nema samanlagt 2.229 milljörðum króna miðað við uppgjör þeirra fyrir árið 2017.
Sé miðað við bókfært eigið fé þeirra þá er virðið nú 427,2 milljarðar króna. Eigið fé Landsbankans er 246,1 milljarður króna og eigið fé Íslandsbanka 181,1 milljarður króna.
Þetta eru verðmætustu fyrirtækjaeignir sem íslenska ríkið á, ásamt Landsvirkjun.
Til samanburðar þá nemur eigið fé Landsvirkjunar rúmlega tveimur milljörðum Bandaríkjadala, samkvæmt uppgjöri fyrir árið 2017, eða sem nemur um 210 milljörðum króna.
Samanlagt er virði eignarhluta ríkisins í þessum þremur fyrirtækjum, ef miðað er við bókfært eigið fé, um 637 milljarðar króna.
Í tilfelli Landsvirkjunar er líklegt að virðið sé mun meira, en sem nemur bókfærðu eigið. Sé miðað við tvöfalt bókfært eigið fé, þá er virði hlutar ríkisins í Landsvirkjun um 420 milljarðar króna.
Útlit er fyrir að arðgreiðslur fyrirtækjanna til ríkisins vegna ársins í fyrra muni skipta tugum milljarða. Fyrir aðalfundi Landsbankans liggur fyrir tillaga upp á 15,4 milljarða króna, og gera má ráð fyrir milljarða argreiðslum til ríkisins frá bæði Íslandsbanka og Landsvirkjun.
Samþykkt var á aðalfundi Íslandsbanka í fyrra að greiða 10 milljarða í arð til ríkisins og er gert ráð fyrir 13 milljarða arðgreiðslu nú.
Hjá Landsvirkjun er útlit fyrir að fyrirtækið geti farið að greiða 10 til 20 milljarða í arð á ári til ríkisins á næstu árum, en efnahagur fyrirtækisins hefur styrkst jafnt og þétt á undanförnum árum, með niðurgreiðslu skulda og vaxandi tekjum. Þær námu í fyrra 491 milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 50 milljörðum króna.
Heildareignir Landsvirkjunar hafa líka aldrei verið meiri, en þær námu 4,5 milljörðum Bandaríkjadala í lok árs í fyrra, eða sem nemur ríflega 450 milljörðum króna.