Bankasýsla ríkisins sendi í dag tillögu til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að ríkið ætti að selja Kaupskilum, dótturfélagi Kaupþings ehf., 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka á 23,4 milljarða króna. Um er að ræða nýtingu á kauprétti Kaupþings samkvæmt hluthafasamkomulagi sem gert var árið 2009 þegar ríkið lagði Arion banka til 9,8 milljarða króna gegn því að fá umræddan eignarhlut. Ríkið hafði til 21. febrúar að taka tilboði Kaupþings en líkt og Kjarninn hefur áður greint frá þá gat ríkið ekki hafnað því. Um var að ræða einhliða rétt til að nýta sér kaupréttinn.
Þetta er staðfest í frétt á vef Bankasýslu ríkisins, Þar sem segir að það sé niðurstaða hennar að „Kaupskil ehf. hafi einhliða, ótvíræðan og fortakslausan samningsbundinn rétt til að kaupa hlut íslenska ríkisins í Arion banka hf. á grundvelli fyrrgreinds hluthafasamkomulags. Í hluthafasamkomulaginu kom fram hvernig kaupréttarverðið skyldi reiknað út. Undirliggjandi forsendur voru að ríkissjóður skyldi ávaxta upphaflegt hlutafjárframlag (áskriftarverð) sitt til bankans miðað við tiltekna vexti, 5 prósent áhættuálag og árafjölda.
Stofnunin hefur yfirfarið útreikning á kaupréttarverðinu og fengið staðfestingu Grant Thornton á því. Niðurstaðan er að kaupréttarverð, miðað við uppgjör þann 21. febrúar nk., er 23.422.585.119 kr. sem er sama verð og birtist í tilkynningu Kaupskila ehf. um nýtingu kaupréttarins.“
Hægt er að lesa tillögu Bankasýslunnar í heild sinni hér.