Píratar leggja fram frumvarp um opna nefndarfundi. Í frumvarpinu er boðuð breyting á lögum um þingsköp, þannig að nefndarfundir Alþingis verði að jafnaði haldnir í heyranda hljóði með ákveðnum undantekningum.
Þannig verði hægt að halda fundi nefnda fyrir luktum dyrum ef fjalla á um gögn eða upplýsingar sem nefnd tekur við í trúnaði, ef starfsmenn Stjórnarráðsins koma fyrir þingnefnd, ef gestur sem kemur fyrir nefnd óskar eftir því eða ef ræða skal mál sem verðar þjóðaröryggi eða mikilvæga hagsmuni Íslands sem leynt þurfa að fara.
Helgi Hrafn mælti fyrir frumvarpinu í dag, en þingflokkur Pírata stendur allur að málinu. Helgi Hrafn hefur ítrekað talað fyrir því að þessar breytingar verði gerðar á störfum þingsins. Hann vakti nokkra athygli fyrir það á þar síðasta þingvetri þegar hann kom fyrst inn á þing að enda allar ræður sínar á orðunum „að lokum legg ég til að nefndarfundir Alþingis verði hér eftir öllum opnir,“ og vísaði þar í Rómverjann Cató gamla sem endaði allar sínar ræður í öldungaráðinu með því að leggja til að Karþagó yrði lögð í eyði. Helgi uppskar nokkurn hlátur í þingsal þegar hann sneri aftur á þing í desember síðastliðnum og hélt uppteknum hætti, þegar hann lauk fyrstu ræðu sinni um stefnuræðu forsætisráðherra með sömu orðum.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að stór hluti löggjafarferlisins felist í nefndarfundum fastanefnda Alþingis. Fundir nefndanna séu að jafnaði lokaðir þótt oft komi þar fram gagnlegar upplýsingar um einstaka þætti þingmáls sem geti verið ganglegir í almennri umræðu og við umfjöllun fjölmiðla. „Breyting þingskapa á þá leið að fundir fastanefnda Alþingis yrðu að jafnaði opnir mundi veita betri innsýn í þær forsendur sem liggja að baki lagasetningu og tillögum Alþingis og gera fjölmiðlum og almenningi betur kleift að fylgjast með þingstörfum,“ segir í greinargerðinni.
Þannig sé frumvarpinu ætlað að stuðla að því að fjölmiðlaumfjöllun og umræða meðal almennings geti farið fram samhliða nefndarstörfum en ekki einungis eftir að nefnd hefur afgreitt mál og tekið það til umræðu í þingsal að nýju. Slíkt fyrirkomulag myndi veita almenningi og öðrum hagsmunaaðilum færi á því að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum áður en mál væri komið á lokastig þinglegrar meðferðar.