„Við erum að bíða eftir að fá fund með heilbrigsráðherra (Svandísi Svavarsdóttur) til að ræða um þessa stöðu, sem upp er komin,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, en til stendur að segja upp rammasamningi, vegna þjónustu sjúkraþjálfara, í ljósi þess að kostnaður hefur farið fram úr því sem áætlað var.
Nýtt greiðsluþátttökukerfi var tekið í notkun 1. maí í fyrra, og segir Unnur að það hafi gert það að verkum að fleira fólk hafi getað nýtt sér þjónustu sjúkraþjálfara, án þess að kostnaðurinn væri óviðráðanlegur fyrir það. Hún segist hugsi yfir stöðunni, einkum fyrir hönd skjólstæðinga sjúkraþjálfara en einnig fyrir hönd stéttarinnar.
Í bréfi sem sjúkraþjálfurum hefur borist frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), segir að geri heilbrigðisráðherra ekki athugasemdir, þá muni SÍ segja upp rammasamningi við sjúkraþjálfa, er varðar greiðsluþátttöku ríkisins, fyrir lok mánaðarins með sex mánaða fyrirvara.
Kostnaðurinn hefur farið framúr því sem áætlað var þegar kerfið var tekið upp, og munar þar um 300 milljónum, miðað við framreiknun fyrir þetta ár, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Unnur segir að sjúkraþjálfarar fagni því, að geta veitt sína þjónustu gagnavart fleiri hópum í samfélaginu, ekki síst þeim sem lágar tekjur hafa, og hið nýja greiðsluþátttökukerfi hafi opnað á þann möguleika fyrir fjölmarga. Aukin sókn í sjúkraþjálfun, miðað við það sem SÍ hafi gert ráð fyrir, sé af hinu góða, að mati Unnar. Hún segist ekki hafa fengið ítarlegar upplýsingar ennþá, um það „hvað hangi á spýtunni“ en að hennar mati sé það af hinu góða - og til þess fallið að lækka kostnað fyrir heilbrigðiskerfið almennt - ef fólk almennt sé að nýta sér sjúkraþjálfun.
Unnur segist fagna umræðu um málið, en furðar sig á því ef nýju kerfi og samningi sé ekki gefinn lengri tími. „Það er ekkert sem á að koma neinum á óvart í þessu, og frá okkar bæjardyrum séð, þá er það mikilvægt mál fyrir íslenskt samfélag, að tryggja aðgengi allra hópa í samfélaginu að sjúkraþjálfun,“ segir Unnur.
Hún segist bjartsýn á að lausn finnist á stöðunni, sem upp er komin, og bindur vonir við að frekari upplýsingar komi fram eftir fund með heilbrigðisráðherra.