Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem á 9,99 prósenta hlut í Arion banka, bætti talsvert við eignarhlut sinn í Kaupþingi í fyrra – fór úr 38 prósentum í tæplega 46 prósent – en sjóðurinn er sem fyrr langsamlega stærsti hluthafi eignarhaldsfélagsins.
Frá þessu eru greint í Markaðnum í dag, en Fjármálaeftirlitið mat sjóðinn hæfan til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka í september í fyrra.
Vogunarsjóðurinn er með beint og óbeint eignarhald í Arion banka, sem stærsti hluthafi Kaupþings, sem nemur um 36 prósentum, eða vel ríflega þriðjungi. Stjórnandi sjóðsins og stærsti eigandi, Frank Brosens, hefur talað um áhuga sinn á fjárfestingum á Íslandi, og sagði hann í viðtali við Fréttablaðið að hann teldi framtíðarhorfur efnahagsmála á Ísland góðar og í þeim felist spennandi fjárfestingakostur.
Heildareignir Kaupþings námu um 230 milljörðum í lok þriðja ársfjórðungs 2017 en þar munaði mest um 57 prósenta eignarhlut félagsins í Arion banka sem var þá metinn á liðlega 98 milljarða, að því er fram kemur í Markaðnum.
Sem kunnugt er hefur Bankasýsla ríkisins ráðlagt ríkinu að selja hlut sinn í Arion banka, 13 prósent, á 23,4 milljarða króna. Byggja viðskipti á kauprétti á hlutnum, sem taka mið af fyrrnefndu verði.