Nemendur við Stoneman Douglas High School í Flórída, þar sem 17 voru drepnir í skotárás 14. febrúar síðastliðinn og fjórir til viðbótar særðir alvarlega, heimsóttu Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsið og kröfðust breytinga á byssulöggjöfinni.
„Við munum ekki hætta, við krefjumst aðgerða,“ sagði Justin Gruber, nemandi á sextánda ári við skólann, þegar hann ávarpaði forsetann.
Í salnum voru samankomnir nemendur, foreldrar fórnarlamba og margir af æðstu ráðamönnum Bandaríkjanna. Ungmenni úr skólanum fluttu kjarnyrtar ræður þar sem orðunum var beint að ráðamönnum, og var krafa gerð um breytingar á byssulöggjöfinni.
Töldu þau með öllu óásættanlegt að það væri yfir höfuð hægt, að kaupa árásarvopn af ýmsu tagi í verslunum, án nokkurra vandkvæða.
I will always remember the time I spent today with courageous students, teachers and families. So much love in the midst of so much pain. We must not let them down. We must keep our children safe!!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) February 22, 2018
Full Listening Session: https://t.co/x5VenyQX5p pic.twitter.com/CAPfX5odIp
Á þessu ári hafa verið framkvæmdar 18 skotárásir í skólum í Bandaríkjunum. Að meðaltali hafa látið lífið um 3,6 af hverjum 100 þúsund íbúum vegna skotárása árlega í Bandaríkjunum, en meðaltölin í flestum þróuðum ríkjum heimsins eru á bilinu 0,1 til 0,3 á hverja hundrað þúsund íbúa.
Donald J. Trump Bandaríkjaforseti sagði á fundinum að hann teldi koma til greina að kennarar myndu bera vopn „til að tryggja öryggi“. Hann sagði að þetta gæti þó aðeins átt við um fólk sem kynni að fara með skotvopn.
Hann sagðist ætla að beita sér fyrir því að bakgrunnsathuganir þeirra sem keyptu skotvopn yrðu ítarlegri og betri. Hann lofaði nemendunum og aðstandendum þeirra sem féllu, að grípa til aðgerða. „Í þetta skiptið munum við gera eitthvað,“ sagði hann.
Tvenn stór mótmæli hafa nú þegar verið skipulögð, á landsvísu, undir yfirskriftinni; nú er nóg komið (Enough is enough). Þau fara fram 14. mars, þegar nemendur í gagnfræðiskólum í Bandaríkjunum ætla að yfirgefa skólann til að mótmæla, og síðan 24. mars, þegar ungmenni ætla að mótmæla í skipulögðum mótmælagöngum vítt og breitt um Bandaríkin.