Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hafa þegar fundað um það hvernig megi bæta sálfræðisþjónustu í framhaldsskólum.
Nýjar tölur sýna mikið brottfall úr framhaldsskóla vegna andlegra veikinda nemenda.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Haft er eftir Davíð Snæ Jónssyni, formanni Sambands íslenskra framhaldsskóla, að nýjar tölur um brottfall nemenda séu svakalegar. „Við sjáum að tölurnar eru svakalegar. 141 sem hættir í námi vegna andlegra veikinda,“ segir Davíð Snær og vísar í nýja skýrslu Menntamálastofnunar um brotthvarf í framhaldsskólum.
Talan sem Davíð vísar til nær yfir síðustu haustönn en í heildina hættu rúmlega 750 nemendur í framhaldsskóla í haust, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.
SÍF stendur um þessar mundir fyrir herferð á samfélagsmiðlum og reynir þannig að þrýsta á stjórnvöld um að boðið verði upp á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum.
Davíð segir í samtali við Fréttablaðið þátttökuna hafa sýnt að andlegi þátturinn sé mikilvægur, en alþjóðlegar mælingar hafa sýnt að Ísland er eftirbátur flestra þjóða í Evrópu, þegar kemur að brottfalli úr framhaldsskóla.