Stjórnarskrárfélagið lýsir yfir áhyggjum af því fyrirkomulagi sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur til um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár sem hún kynnti þann 22. janúar síðastliðinn, ekki síst í ljósi sögulegrar reynslu og þess sem á undan er gengið. Auk þess að gera athugasemdir við tillögu forsætisráðherra leggur Stjórnarskrárfélagið til skilvirkara og réttlátara fyrirkomulag.
Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Stjórnarskrárfélagsins sem birt var í dag vegna minnisblaðs forsætisráðherra varðandi endurskoðunina.
Segir jafnframt í ályktuninni að Stjórnarskrárfélagið fagni öllum einlægum áformum um að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Löngu sé tímabært að ljúka því ferli sem hófst í kjölfar Hrunsins með víðtækri þátttöku almennings og bar svo ríkulegan ávöxt.
Heildarendurskoðun áfangaskipt
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti formönnum þeirra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi tillögu að fyrirkomulagi stjórnarskrárvinnu á komandi kjörtímabili þann 22. janúar síðastliðinn. Sú tillaga byggist á umræðum sem formenn flokka áttu um þessi mál á síðasta kjörtímabili. Tillagan byggist á þeirri framtíðarsýn að núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili. Markmiðið er að þegar þessari heildstæðu yfirferð verði lokið endurspegli íslenska stjórnarskráin sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð. Þetta kom fram í frétt forsætisráðuneytisins í janúar síðastliðnum.
Segir ennfremur í fréttinni að gert sé ráð fyrir því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði áfangaskipt. Allir flokkar sem sæti eiga á Alþingi vinni sameiginlega að því að fara skipulega og heildstætt yfir stjórnarskrá lýðveldisins og tillögur sem fram hafa komið á undanförnum árum með það fyrir augum að vinna að breytingartillögum sem lagðar yrðu fyrir Alþingi hverju sinni í breiðri sátt að undangengnu víðtæku samráði. Hliðsjón verði höfð af þeirri vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun á undanförnum árum, samanber til dæmis þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð auk starfa stjórnarskrárnefnda árin 2005 til 2007 og árin 2013 til 2016, þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi, auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hefur þegar komið fram. Vinnan verði unnin með eins opnum og gagnsæjum hætti og mögulegt er.
Lýðræðisleg niðurstaða sé virt
Segir í ályktun stjórnar Stjórnarskrárfélagsins að áform forsætisráðherra verði að fela í sér viðurkenningu á lýðræðislegum grundvallargildum, í orði og í verki. Það sé lykilatriði ef ljúka á endurskoðun stjórnarskrárinnar sómasamlega og farsællega fyrir land og þjóð. Þau grundvallargildi séu meðal annars að lýðræðisleg niðurstaða lögmætra kosninga sé virt og viðurkennt að uppspretta ríkisvalds sé hjá þjóðinni. „Staðreyndin sem enginn stjórnmálaflokkur má leyfa sér að líta framhjá er sú, að endurskoðun stjórnarskrárinnar fór fram í kjölfar Hrunsins í löngu og lýðræðislegu ferli með mikilli þátttöku almennings þannig að vakið hefur athygli og aðdáun víða um heim. Niðurstaða þess ferlis voru tillögur að nýrri stjórnarskrá sem hlutu brautargengi með 2/3 hlutum atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012,“ segir í ályktuninni.
Ennfremur segir að þær tillögur, „nýja stjórnarskráin“ sem svo er nefnd, hljóti að verða útgangspunkturinn þegar ljúka á ferli endurskoðunarinnar. „Ef stjórnmálaflokkar á Alþingi treysta ekki þjóðinni, hví skyldi þjóðin þá treysta stjórnmálaflokkunum? Frumvarp að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá lá fyrir fullbúið af hálfu Alþingis í mars 2013, frumvarp sem var efnislega í samræmi við niðurstöðu Þjóðfundar 2010, tillögur Stjórnlagaráðs og niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Í frumvarpi Alþingis hafði jafnframt verið brugðist við athugasemdum Feneyjarnefndarinnar og fjölmargra annarra. Í því ljósi er fullkomlega ástæðulaust að draga endurskoðun stjórnarskrárinnar í heil tvö kjörtímabil, átta ár. Víðtæk sátt sýndi sig vera um tillögur að hinni nýju stjórnarskrá meðal almennings. Ósætti og ósamkomulag milli stjórnmálaflokka á Alþingi á ekki og má ekki standa í vegi fyrir þeirri sátt. Þrátt fyrir allt er enginn ágreiningur um að þjóðin er stjórnarskrárgjafinn þótt Alþingi samþykki að forminu til lögfestingu nýrrar stjórnarskrár.“
Kalla saman almenna borgara með slembivali
Stjórnarskrárfélagið leggur til að eftirfarandi orð Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns verði höfð að leiðarljósi við að ljúka stjórnarskrárferlinu en þau voru sett fram með hliðsjón af því lýðræðislega ferli sem fæddi af sér nýju stjórnarskrána. „Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins,“ segir Ragnar.
Jafnframt segir í ályktuninni að ef ætlunin sé að virkja almenning til að ljúka stjórnarskrárferlinu, líkt og minnisblað forsætisráðherra gefi fyrirheit um, telur Stjórnarskrárfélagið áríðandi að það sé gert strax í byrjun. Fyrsta skrefið í ferlinu þyrfti að vera að kalla saman almenna borgara með slembivali og fela þeim að yfirfara tillögurnar sem liggja fyrir. Það mætti gera með þjóðfundarfyrirkomulagi eða rökræðukönnunum eftir atvikum.
Takmarkið hljóti að vera að endurspegla sjónarmið borgaranna í stjórnarskránni svo hún gegni hlutverki sínu sem samfélagssáttmáli og grunnlög þjóðarinnar. Meira en sjötíu ára reynsla Íslendinga af stjórnarskrárnefndum þingsins hljóti að teljast sönnun þess að einskis árangurs er að vænta af slíkri nefnd. „Árið er 2018 og viðeigandi að hin nýja stjórnarskrá yrði lögfest á 100 ára fullveldisafmæli íslenska ríkisins þann 1. desember næstkomandi. Fullveldið er þjóðarinnar, þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og frá henni er allt ríkisvald sprottið.“