Norska fyrirtækið Norsk Hydro ASA hefur gert skuldbindandi tilboð um að kaupa álverið í Straumsvík af núverandi eiganda þess, Rio Tinto. Í fréttatilkynningu á heimasíðu Norsk Hydro segir að í tilboðinu felist að kaupa allt hlutafé í íslenska álverinu, 53 prósent hlut í hollenskri verksmiðju Rio Tinto og helmings hlut í sænskri verksmiðju fyrirtækisins. Tilboðið í allan pakkann hljóðar upp á 345 milljónir dali, eða 34,7 milljarða króna.
Í tilkynningunni er haft eftir Svein Richard Brandtzæg, forstjóri Norsk Hydro, að tilboðið endurspegli mikla trú fyrirtækisins á álframleiðslu. Eftirspurn eftir því sé að vaxa meira en eftir nokkrum öðrum málmum á heimsvísu.
Norsk Hydro er eitt stærsta álfyrirtæki í heimi. Norska ríkið á 43,8 prósent hlut í því og norski olíusjóðurinn á auk þess 6,5 prósent hlut. Hjá fyrirtækinu starfa um 13 þúsund manns. Hlutabréf Norsk Hydro eru skráð í kauphöllinni í Osló.
Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumsvík, greindi starfsmönnum sínum frá því á fundi í september í fyrra að Rio Tinto, eigandi þess, væri að endurskoða eignarhald sitt á álverinu. Afkoma álversins hefur verið slök undanfarin ár og umtalsvert tap hefur verið á rekstrinum.
Ketill Sigurjónsson, orkusérfræðingur, fjallaði ítarlega um mögulega sölu álversins í grein á Kjarnanum í kjölfarið. Þar sagði hann að þó svo að álverið í Straumsvík sé nú minnsta álverið á Íslandi sé Straumsvíkurverið geysilega mikilvægur viðskiptavinur fyrir Landsvirkjun. Álverið notar um fjórðung af allri þeirri raforku sem Landsvirkjun framleiðir en skilar Landsvirkjun um þriðjungi af öllum sölutekjum fyrirtækisins. Þar með megi segja að álverið í Straumsvík sé mikilvægasti viðskiptavinur Landsvirkjunar.
Núgildandi raforkusamningur álversins og Landsvirkjunar gildir til 2036, en endurskoðunarákvæði um raforkuverðið verður virkt 2024. Straumsvíkurverið er nú að greiða langhæsta orkuverðið af öllum álverunum hér, enda með nýjasta samninginn (nýr samningur Landsvirkjunar og Norðuráls verður ekki virkur fyrr en 2019). Raforkuverðið sem Straumsvíkurverið greiðir er samt ekkert mjög hátt í alþjóðlegu samhengi, að sögn Ketils.