Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í Morgunblaðinu í dag að vísbendingar séu nú komnar fram um að hagkerfið sé að kólna nokkuð hratt.
Hagvaxtarspár fyrir árið 2017 hafa verið leiðréttar niður á við töluvert, en í maí í fyrra var gert ráð fyrir 6,3 prósent hagvexti en núna er spá seðlabankans komin niður í 3,4 prósent fyrir árið 2017.
Hagstofan gerir ráð fyrir 2,9 prósent hagvexti á þessu ári. Horfur fyrir næstu ár eru þó metnar nokkuð góðar, og að hagvöxtur verði á bilinu 2 til 3 prósent á ári.
Eitt þeirra atriða sem Halldór Benjamín nefnir er aukið atvinnuleysi. Stjórnvöld þurfi að horfast í augu við breytta stöðu og sýna á spilin í kjaramálum, að því er hann segir í Morgunblaðinu.
Í endurskoðaðri þjóðhagspá Hagstofunnar er spá 2,9% aukningu landsframleiðslu á þessu ári, eins og áður sagði, og verður hún að miklu leyti drifin áfram af vexti einkaneyslu. „Reiknað er með að atvinnuvegafjárfesting dragist saman vegna minni fjárfestingar í skipum og flugvélum, en á móti vex íbúðafjárfesting um 19% og opinber fjárfesting um nærri 12%. Gert er ráð fyrir jákvæðum vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd en að vöxtur útflutnings verði um 4,1% og innflutnings um 5,7%. Næstu ár er reiknað með að hagvöxtur verði í kringum 2,5–2,8%,“ segir í spá Hagstofunnar.