Í skýrslu ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hafi kvartað yfir hlutdrægni fjölmiðla á fundi með eftirlitsmönnum stofnunarinnar í aðdraganda Alþingiskosninga í lok október í fyrra.
Í skýrslunni, sem birt hefur verið á vefnum og vitnað var til í umfjöllun RÚV, segir að fulltrúarnir hafi kvartað undan hlutdrægni fjölmiðla sem fjölluðu um „lögbannið, þannig að það hafi eingögnu átt við um umfjöllun um forsætisráðherrann,“ sem á þessum tíma var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Lögbannið sem vitnað er til, var lögbannið sem Glitnir Holdco fékk sett á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum frá Glitni. Meðal annars var þar umfjöllun um viðskiptamálaefni Bjarna, þegar hann var bæði stór þátttakandi í íslensku viðskiptalífi og þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Lögbannið var sett á eftir að sýslumaður samþykkti beiðni Glitnis Holdco þar um, um miðjan október.
Lögbannið hefur nú verið dæmt ólöglegt í héraði, en Glitnir hefur áfrýjað til Hæstaréttar, og því gætir áhrifa þess enn. Ritstjórar Stundarinnar og Reykjavík Media hafa harðlega mótmælt lögbanninu alla tíð, og sagt það vega að tjáningarfrelsinu og frjálsri fjölmiðlun á Íslandi.