Framsóknarflokkurinn vill að stór alþjóðlegur viðskiptabanki verði fenginn inn á íslenskan bankamarkað til að auka samkeppni. Þá vill flokkurinn að ríkið eigi ráðandi hlut í einum banka til frambúðar og að slíkur banki skuli rekinn með lágmarkstilkostnaði og á forsendum lágmarksáhættu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í drögum að stjórnmálaályktun flokksins fyrir komandi flokksþings hans, sem hefst næstkomandi föstudag.
Framsóknarflokkurinn situr í ríkisstjórn og varaformaður hans, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins á samt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Nú stendur yfir vinna starfshóps á vegum stjórnvalda um gerð hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi. Sá hópur á að skila af sér um miðjan maí.
Vilja að ríkið sé virkur eigandi
Í drögunum að stjórnmálaályktun Framsóknarflokksins segir enn fremur að nýleg reynsla af öðrum mikilvægum neytendamörkuðum sýni að „aðkoma viðurkenndra alþjóðlegra aðila getur skapað umtalsverðan þrýsting á innlenda samkeppni neytendum til hagsbóta.“ Þess vegna sé eftirsóknarvert að fá alþjóðlegan viðskiptabanka til landsins. Þar er að öllum líkindum vísað í komu fyrirtækja á borð við Costco og H&M til Íslands og áhrif þeirra á samkeppni í smásölu, eldsneytissölu og sölu fatnaðar.
Í drögunum segir að í því að vera virkur hluthafi felist að sett verði „eigendastefna fyrir hvern eignarhlut um sig og þeirri stefnu framfylgt af stjórnarfólki sem beri ábyrgð gagnvart Bankasýslu ríkisins. Eigendastefnan fyrir hvern eignarhlut geti verið mismunandi eftir því hvert kerfislegt hlutverk hver fjármálastofnun skuli hafa að mati ríkisins. Með eigendastefnunni skuli stuðla að samkeppni og fjölbreytni á bankamarkaði og að því marki að lágmarka áhættu ríkisins af bankakerfinu.“