Farþegum í febrúar síðastliðnum fjölgaði um 19 prósent hjá WOW air. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Í henni kemur jafnframt fram að WOW air hafi flutt 199 þúsund farþega til og frá landinu í febrúar eða um 19 prósent fleiri farþega en í febrúar árið 2017. Þá hafi sætanýting WOW air verið 88 prósent en hún hafi verið 86 prósent í sama mánuði á síðasta ári. Þetta sé þrátt fyrir 17 prósent aukningu á framboðnum sætum á milli ára.
„Bæði Icelandair og WOW air hafa birt tölur yfir farþegaflutninga fyrir janúar og febrúar og séu þær tölur bornar saman má sjá að WOW air hefur flutt fleiri farþega en Icelandair það sem af er árinu,“ segir í tilkynniningunni.
„Febrúar hefur verið krefjandi mánuður sökum veðurs en þökk sé frábæru starfsfólki náðum við góðum árangri og höldum ótrauð áfram,“ segir Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air.