Ávörðun ríkissaksóknara, þar sem hafnað var kröfu um að fram færi lögreglurannsókn á því hvort æðstu embættismenn Seðlabanka Íslands hefðu gerst brotlegir við almenn hegningarlög um rangar sakargiftir, hefur verið felld úr gildi.
Þá þarf ríkissaksóknari að greiða Gísla Reynissyni, sem stefnanda í málinu, eina milljón króna í málskostnað.
Dómur í málinu var kveðinn upp 5. mars síðastliðinn. Gísli er einn þeirra sem ákærður var í Aserta málinu svonefnda og sýknaður eins og þeir Karl Löve Jóhannsson, Markús Máni Michelsson Maute og Ólafur Sigmundsson.
Ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um að hafna rannsókn, er frá 11. nóvember 2016.
Krafan um lögreglurannsókn var byggð á því að Seðlabanki Íslands hefði haustið 2009 sakað umrædda menn um brot gegn reglum nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál „þótt æðstu embættismönnum bankans hefði verið ljóst frá öndverðu að reglurnar hefðu ekki hlotið lögáskilið samþykki ráðherra og væru því ógild refsiheimild. Seðlabanki Íslands hefði enn fremur látið það viðgangast að fram færi tímafrek lögreglurannsókn, þar sem beitt hefði verið ýmsum þvingunaraðgerðum gegn stefnda, og að gefin væri út ákæra í málinu án þess að veittar væru réttar upplýsingar að þessu leyti,“ segir meðal annars í endursögn málsatvika í dómnum.
Var mál Gísla byggt á því að ákvörðun ríkissaksóknara sé reist á rangri skýringu á 148. gr. hegningarlaga, og er tekið undir það í dómnum.
Segir meðal annars í dómnum: „Af ákvæðum laga nr. 88/2008, svo og eðli málsins, verður dregin sú ályktun að ákvörðun um rannsókn sakamáls sé ekki einungis háð mati lögreglu á staðreyndum og túlkun refsilaga heldur einnig ýmsum öðrum atriðum, jafnvel efnahagslegum og félagslegum þáttum. Það er ekki í valdi dómsins að taka ákvörðun um lögreglurannsókn eða mæla fyrir um skyldu stjórnvalda til að hefjast handa við slíka rannsókn. Svo sem áður greinir er það hins vegar dómsins að skera úr um hvort stefndi hafi gætt réttra laga við meðferð máls stefnanda og ákvörðun í því, þ.á m. hvort sú túlkun refsilaga sem stefndi reisir niðurstöðu sína á sé tæk. Því er áður lýst að hin umdeilda ákvörðun stefnda var grundvölluð á því að stefnandi hefði ekki verið sakaður um refsiverða háttsemi með fyrrgreindri tilkynningu Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2009 þar sem reglur nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál hefðu ekki falið í sér fullnægjandi refsiheimild. Væri því ekki fullnægt því hlutræna skilyrði 148. gr. hegningarlaga að með tilkynningunni, eða öðrum athöfnum og athafnaleysi bankans í framhaldi tilkynningarinnar, hefði stefndi verið sakaður um refsiverðan verknað. Var ákvörðun lögreglustjóra 11. nóvember 2016 staðfest með „þessum athugasemdum“ án þess að tekin væri rökstudd afstaða til efnislegs rökstuðnings lögreglustjóra fyrir því að hafna kæru stefnanda.“
Þá segir enn fremur, að með 148. gr. hegningarlaga sé lögð refsing við því að koma því til leiðar, með rangri kæru, röngum framburði, rangfærslu eða undanskoti gagna, öflun falsgagna eða á annan hátt, að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. „Samkvæmt framangreindu getur ekki farið á milli mála að nægilegt er til fullframningar brots samkvæmt 148. gr. hegningarlaga að maður komi því til leiðar að saklaus maður sé sakaður um brot án þess að ásetningur þurfi að vera til þess að hann verði dæmdur fyrir refsiverðan verknað af dómstólum. Er enn fremur ljóst að ásökun um refsiverðan verknað, án tillits til endanlegrar niðurstöðu málsins, kann að vera íþyngjandi fyrir saklausan mann með margvíslegum hætti, auk þess sem augljósir almannahagsmunir standa til þess að handhafar rannsóknar- og ákæruvalds saki ekki menn um refsiverðan verknað gegn betri vitund. Að mati dómsins verður tilkynning Seðlabanka Íslands 11. nóvember 2009 ekki skilin á aðra leið en þá að háttsemi stefnanda sé þar talin varða við refsilög, meðal annars áðurgreindar reglur nr. 1130/2008. Svo sem áður greinir leiddi tilkynningin til lögreglurannsóknar og að lokum til þess að sérstakur saksóknari gaf út ákæru 22. mars 2013 vegna ætlaðra brota stefnanda og þriggja annarra nafngreindra manna, meðal annars gegn reglum nr. 1130/2008. Seðlabanki Íslands var á þeim tíma sem hér um ræðir það stjórnvald sem fór með framkvæmd og frumeftirlit laga um gjaldeyrismál og reglna sem settar höfðu verið samkvæmt þeim lögum. Eðli málsins samkvæmt hlaut því í téðri tilkynningu bankans að felast ásökun um refsiverðan verknað stefnanda í skilningi 148. gr. hegningarlaga, hverjar svo sem endanlegar lyktir málsins kynnu að verða, eftir atvikum fyrir dómstólum,“ segir í dómnum.
Lögmaður Gísla Reynissonar, stefnanda í málinu, var Eva Halldórsdóttir en lögmaður ríkissaskóknara var Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmaður. Skúli Magnússon var dómari í málinu.