Ferðamálastofa fær heimildir til að leggja dagsektir á fyrirtæki í ferðaþjónustu samkvæmt nýju frumvarpi til laga um Ferðamálastofu, ferðamálaráð og leyfisveitingar í ferðaþjónustu sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt og óskað eftir umsögnum um.
Í frumvarpinu er lagt til að Ferðamálastofu verði veittar heimildir til að beita aðila, sem ekki fara að ákvörðunum sem teknar hafa verið á grundvelli laganna, eða stunda leyfis- eða skráningarskylda starfsemi án viðeigandi leyfis eða skráningar, dagsektum þar sem farið verði að henni eða starfsemi skráð á fullnægjandi hátt. Með dagsektum verður henni þannig kleift að þvinga aðila til að fara að ákvæðum laganna, til dæmis varðandi leyfisskyldu og skráningu, gerð öryggisáætlana og fleira. Ekki er hins vegar lagt til að svo stöddu að Ferðamálastofa fái heimild til að beita stjórnvaldssektum.
Ferðamálastofa mun eftir sem áður geta fellt niður leyfi aðila.
Frumvarpið felur að öðru leyti í sér nýja löggjöf um Ferðamálastofu, ferðamálaráð og leyfisveitingar í ferðaþjónustu sem ætlað er að standa sjálfstæð en til hliðar við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem hefur einnig verið lagt fram. Helstu breytingar frá gildandi lögum snúa að stjórnsýslu málaflokksins, breytingu á hlutverki Ferðamálastofu, skyldu ferðaþjónustuaðila til að setja sér öryggisáætlun, dagsektarheimildinni og flutningi ákvæða yfir í lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Í frumvarpinu er þannig lagt til að lögfest verði skylda ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á skipulagðar ferðir að útbúa öryggisáætlun í samræmi við tillögur sem fram koma í skýrslunni. Áður hefur verið lagt til að slík skylda verði lögfest. Öryggisáætlun skal vera með ákveðnum hætti og innihalda m.a. viðbragðsáætlun og er lagt til að ráðherra setji nánari fyrirmæli í reglugerð um hvað koma skuli fram í öryggisáætlun. Markmiðið er að auka öryggi ferðamanna sem hingað koma í skipulagðar ferðir eða kaupa slíka ferðaþjónustu innanlands. Þannig er gert ráð fyrir að ferðaþjónustuaðili þurfi að útbúa öryggisáætlun fyrir sérhverja tegund ferðar þar sem lagt er mat á helstu áhættuþætti ferðarinnar, viðbrögð við hugsanlegri vá og áætlun um hvernig skuli brugðist við ef eitthvað fer úrskeiðis.