Framsóknarflokkurinn telur hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni óraunhæfar og telur hagkvæmara að efla Reykjavíkurflugvöll og Keflavíkurflugvöll í þeirra hlutverkum. Þetta kemur fram í viðbót við ályktnu um samgöngumál sem Jóhann Friðrik Friðriksson, efsti maður á framboðslista flokksins í Reykjanesbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum, lagði fram á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag og var samþykkt.
Jóhann Friðrik greinir frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann: „Miðstöð innanlandsflugs á Íslandi er í Reykjavík og millilandaflugs á Suðurnesjum. Svæðisskipulag Suðurnesja sem samþykkt hefur verið af öllum sveitarfélögum svæðisins gerir ekki ráð fyrir flugstarfsemi í Hvassahrauni. Hvassahraun liggur á vatnsverndarsvæði á svokölluðu fjarsvæði vatnsverndar fyrir Suðurnes. Við skilgreiningu fjarsvæðis er litið til þátta eins og misgengis og sprungna þar sem gæta þarf sérstakrar varúðar og því eru framkvæmdir þar takmörkum settar. Áætlað er að flugvallarframkvæmdir í Hvassahrauni geti kostað yfir 200 milljarða króna. Fjármunum er mun betur varið til vegamála þar sem stórátaks er þörf.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og er því æðsti yfirmaður samgöngumála í landinu.
Rögnunefndin, stýrihópur ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group sem hafði það markmið að kanna og meta nokkra staði fyrir nýjan innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu, skilaði skýrslu sinni árið 2015. Í niðurstöðu hennar kom fram að hagkvæmast sé að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni, sem er á mörkum Hafnarfjarðar og Voga. Nefndin lagði til að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni yrðu fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum og að samhliða yrði náð samkomulagi um rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt á meðan að nauðsynlegur undirbúningur og, eftir atvikum, framkvæmdir fari fram.
À flokksþingi Framsóknarflokksins í dag lagði ég fram eftirfarandi viðbót við ályktun um samgöngumál og var hún...
Posted by Johann Fridrik Fridriksson on Sunday, March 11, 2018