Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, var í dag kjörinn varaformaður flokksins á landsþingi hans sem fram fer í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Hann hlaut 98,5 prósent greiddra atkvæða.
Fyrr í dag hafði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verið kjörinn formaður Viðreisnar í fyrsta sinn með rúmlega 95 prósent atkvæða, en hún hefur gegnt embættinu frá því skömmu fyrir síðustu kosningar þegar Benedikt Jóhannesson ákvað að stíga til hliðar.
Þegar það gerðist var fylgi flokksins einungis um 3,3 prósent en hann náði að rétta úr kútnum síðustu daganna fyrir kosningar og fá 6,7 prósent atkvæða sem skilaði Viðreisn fjórum þingmönnum.
Þorsteinn er búinn að vera þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan 2016 fyrir Viðreisn og var hann félags- og jafnréttismálaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Þegar hann ákvað að bjóða sig fram sagði hann í yfirlýsingu á Facebook: „Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá stofnun flokksins hefur Viðreisn sýnt í verki að við höfum kjark og dug til að ráðast í þær breytingar sem nauðsynlegar eru á íslensku samfélagi svo að lífskjör verði hér áfram í fremstu röð. Við viljum berjast fyrir frjálslyndu, umburðarlyndu og opnu samfélagi þar sem allir fá notið jöfnuðar og jafnra tækifæra.
Þar sem frelsi er í fyrirrúmi í stað forræðishyggju. Þar sem öflugt velferðarkerfi er í forgangi ásamt menntun og fjölbreyttri menningu. Þar sem frjáls og öflug samkeppni ríkir á öllum sviðum viðskiptalífs. Þar sem matvælaverð og vaxtastig er sambærilegt og í nágrannalöndum okkar. Í stuttu máli að Ísland sé land frábært land fólk að búa í, fyrir alls konar fólk, unga sem aldna, konur sem kalla, hinsegin eða svona, innfædda sem aðflutta.“