Breytingar verða gerðar á stjórn Arion banka á komandi aðalfundi bankans, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Í ljósi þess að íslenska ríkið hefur selt hlut sinn í bankanum, þá verður Bankasýsla ríkisins ekki með fulltrúa í stjórn, og verður stjórnarmönnum fækkað úr átta í sjö.
Kirstín Þ. Flygering hefur verið fulltrúi ríkisins í stjórn og hættir hún í stjórninni.
Herdís Dröfn Fjeldsted, sem hefur verið framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, sem nú hefur verið ákveðið að slíta, mun taka sæti í stjórninni en Þóra Hallgrímsdóttir, sem setur hefur í stjórn bankans frá því árið 2013, og sem varamaður í stjórn á árunum 2011 til 2013, mun hætta sem stjórnarmaður.
Herdís Dröfn staðfesti það við Kjarnann í dag, að hún myndi taka sæti í stjórn bankans, en aðalfundur bankans fer fram 15. mars.
Stutt er síðan Kaupskil, félag sem Kaupþing stýrir fyrir hönd eigenda þess, gerði breytingar í stjórninni þegar Guðrún Johnsen fór út úr stjórninni og Steinunn Kristín Þórðardóttir, sem stýrði meðal annars starfsemi Glitnis í London á útrásartíma bankans, tók sæti í stjórninni í hennar stað.
Ekki hefur verið ákveðið að gera frekari breytingar, að svo stöddu.
Í stjórninni munu því sitja Eve Caderbalk, sem er stjórnarformaður, Brynjólfur Bjarnason, Jakob Ásmundsson, John P. Madden og Måns Höglund, auk Herdísar og Steinunnar.
Unnið er að undirbúningi skráningar og útboðs.
Íslenska ríkið seldi 13 prósent hlut sinn í bankanum fyrir 23,4 milljarða króna, á grundvelli kaupréttar sem Kaupþing átti á hlutunum, samkvæmt hluthafasamkomulagi frá árinu 2009.
Eigið fé bankans í lok árs í fyrra nam 225,7 milljörðum króna og heildareignir 1.147,8 milljörðum.