Ekkert verður af því að Valitor Holding, dótturfélag Arion banka, verði aðgreint frá bankanum, áður en kemur að útboði og skráningu, þannig að hlutabréf greiðslukortafyrirtækisins verði að stærstum hluta greidd út í formi arðs til hluthafa.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, en aðalfundur bankans fer fram í dag.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í vikunni, þá stendur til að gera breytingar á stjórn Arion banka, en Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, tekur sæti í stjórninni.
„Meirihluti hluthafa, vogunarsjóðir og Kaupþing, hefur sóst nokkuð eftir að Valitor yrði aðskilið frá samstæðunni með arðgreiðslu. Við þá ráðstöfun myndu sjóðirnir og Goldman Sachs, sem eiga um 32 prósent í Arion banka, jafnframt eiga kauprétt að 21,4 prósenta hlut til viðbótar í Valitor af Kaupþingi. Er kauprétturinn á talsvert hærra verði en sem nemur bókfærðu virði Valitors í reikningum Arion banka. Slíkar arðgreiðsluhugmyndir hafa mætt nokkurri mótstöðu. Þannig hafði Bankasýslan, sem þangað til fyrir skemmstu hélt um 13 prósenta hlut ríkisins í bankanum, komið þeirri skoðun sinni skýrt á framfæri að stofnunin væri mótfallin því að ráðstafa hlutabréfum Valitors í formi arðgreiðslu. Fremur ætti að selja fyrirtækið í opni söluferli,“ segir í umfjöllun Fréttablaðsins í dag.
Íslenska ríkið seldi 13 prósent hlut sinn í bankanum fyrir 23,4 milljarða króna, á grundvelli kaupréttar sem Kaupþing átti á hlutunum, samkvæmt hluthafasamkomulagi frá árinu 2009.
Eigið fé bankans í lok árs í fyrra nam 225,7 milljörðum króna og heildareignir 1.147,8 milljörðum.