Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í setningarræðu sinni á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem hófst í dag, að Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, stæði sterkari eftir í stjórnmálunum, eftir að vantrausttillaga gegn henni var felld á Alþingi.
Sagði hann í ræðu sinni, að hann vissi ekki hvort það væru vonbrigði að sjá fyrrverandi samstarfsflokk og fyrrverandi flokksfélaga greiða atkvæði með tillögunni, og vísaði þar til Viðreisnar. „Ég veit ekki hvort ég geti sagt að það hafi verið vonbrigði að sjá fyrrverandi samstarfsflokk og fyrrverandi flokksfélaga okkar greiða atkvæði með fáheyrðri vantrauststillögu í síðustu viku, þar sem það er svo sem ekki við miklu að búast úr þeirri átt. En ég ætla samt að segja þetta: Einhvern tímann hefði formaður þess flokks sagt að hér væri enn einu sinni vegið með ósanngjörnum hætti að kvenkyns ráðherra í ríkisstjórn - kvenkyns stjórnmálamanni. Það virðist bara ekki eiga við um Sigríði Andersen sem hefur staðið sig vel og átti mikið inni fyrir stuðningi meirihluta Alþingis og ykkar. Hún stendur sterkari eftir,“ sagði Bjarni í ræðu sinni, og vitnað þar til afstöðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins og nú formanns Viðreisnar.
Hann hvatti flokksmenn til að standa saman, og sagði það hafa verið ánægjulegt að finna fyrir samtakamættinum í flokknum síðasta haust, fyrir kosningar, þegar spjótin beindust að flokknum og forystufólki hans. „Það er líka ómetanlegt að eiga ykkur að. Þessi flokkur er einstakur. Það hef ég oft upplifað, en aldrei eins sterkt og í haust, þegar við sendum út herkvaðningu á erfiðum tíma. Þá sýnduð þið, fólkið okkar, hvers við erum megnug, hvernig við bregðumst þegar að okkur er sótt. Við héldum þúsund manna fund. Enginn flokkur sýnir aðra eins samstöðu. Með slíkan bakhjarl er hægt að standa uppréttur í miklum mótvindi,“ sagði Bjarni.