Miðstjórn ASÍ ákvað á fundi sínum í dag að Alþýðusambandið myndi ekki taka sæti í Þjóðhagsráði, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að útvíkka erindi ráðsins og ræða félagslegan stöðugleika ásamt efnahagslegum stöðugleika.
Það er mat miðstjórnar ASÍ að framundan séu átök um grundvallarmál eins og fjármögnun velferðarkerfisins, skattamál, launastefnu og jöfnuð. „Umræða um þessi mál fer ekki fram í Þjóðhagsráði, að mati miðstjórnar, heldur í beinum tengslum við gerð nýrra kjarasamninga í haust,“ segir í yfirlýsingu ASÍ.
Þjóðhagsráð kom saman til fyrsta fundar í júní 2016. Í Þjóðhagsráði sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Þá geta heildarsamtök launafólks sem aðild eiga að rammasamkomulaginu hverju sinni gerst aðilar að Þjóðhagsráði, en eins og hér er um getið, þá ætlar ASÍ ekki að taka sæti í ráðinu.
Fyrr í dag sendi Landssamband íslenskra verslunarmanna frá sér yfirlýsingu, þar sem sjálftöku stjórnenda í atvinnulífinu eru harðlega mótmælt. Segir í yfirlýsingu þeirra að „ögrun“ stjórnenda í atvinnulífinu verði ekki liðin.