Afkoma RÚV var jákvæð um 321 milljón í fyrra, fyrir skatta, og munar þar ekki síst um 174 milljóna króna hagnað vegna sölu á byggingarrétti. Hagnaður vegna sölu af byggingarréti var að mestur færðu í ársreikningi vegna ársins 2016, en tekjur vegna sölunnar voru langt um meiri en „varlegar áætlanir“ RÚV gerðu ráð fyrir. „Tekjur af þessari sölu byggjast á endanlegu byggingamagni á lóðinni og lá það fyrir í byrjun árs 2018. Heildarsöluverð er 1.966 m.kr., sem er umtalsvert meira en varlegar áætlanir RÚV höfðu gert ráð fyrir í upphafi. Markmið RÚV með sölu byggingarréttarins var að greiða niður skuldir félagsins og hefur það gengið eftir og leitt til mestu skuldalækkunar í sögu félagsins. Félagið hefur haldið áfram niðurgreiðslu skulda eftir að lokagreiðslur bárust í ársbyrjun 2018 og hefur einnig ráðstafað hagnaði ársins af reglulegri starfsemi með sama hætti. Eftir sem áður er félagið mikið skuldsett,“ segir í tilkynningu félagsins til Kauphallar.
Rekstrargjöld án afskrifta námu 5,6 milljörðum króna en 5,6 milljörðum árið 2016.
Afskriftir voru 316 milljónir samanborið við 308 milljónir árið 2016.
Heildareignir félagsins í lok árs 2017 námu 8,4 milljörðum króna, eigið fé var 2,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 26,1 prósent en var það var 23,8 prósent í lok árs 2016.
Eiginfjárhlutfall hefur hækkað mikið að undanförnu en það var 5,5 prósent í lok rekstrarársins 2013-2014, að því er segir í tilkynningu félagsins.
Stöðugildi voru að meðaltali 260 á árinu en fjöldi þeirra hefur verið svipaður frá árinu 2015 eftir mikla fækkun á misserunum þar á undan. „Útvarpsgjald var lækkað á nokkurra ára tímabili ásamt því að möguleikar á öflun tekna í gegnum sölu auglýsinga og kostana var takmarkaður,“ segir í tilkynningunni.