Dóra Björt Guðjónsdóttir mun leiða framboðslista Pírata í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara í lok maí. Þetta varð ljóst þegar prófkjöri Pírata í höfuðborginni lauk klukkan 15 í dag.
Hægt er að lesa um Dóru Björt og helstu áherslumál hennar hér. Alls voru greidd 284 atkvæði í prófkjörinu en 19 manns gáfu kost á sér í því.
Í öðru sæti á listanum verður Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og Alexandra Briem situr í þriðja sæti listans. Í fjórða sæti er Rannveig Ernudóttir og Bergþór H. Þórðarson situr í því fimmta.
Píratar eru sem stendur með einn borgarfulltrúa, Halldór Auðar Svansson. Hann hafði þegar gefið út að hann sæktist ekki eftir endurkjöri og var því ekki í framboði í prófkjörinu. Flokkurinn fékk 5,9 prósent atkvæða í kosningunum 2014.
Samkvæmt síðustu birtu skoðanakönnun um fylgi flokka í borginni, sem Gallup vann fyrir Viðskiptablaðið, mældist fylgið 13 prósent. Það myndi skila Pírötum þremur borgarfulltrúum, en slíkum verður fjölgað úr 15 í 23 eftir næstu kosningar.
Listi Pírata í Reykjavík:
1. Dóra Björt Guðjónsdóttir
2. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
3. Alexandra Briem
4. Rannveig Ernudóttir
5. Bergþór H. Þórðarson
6. Valgerður Árnadóttir
7. Kjartan Jónsson
8. Arnaldur Sigurðarson
9. Þórgnýr Thoroddsen
10. Elsa Nore
11. Þórður Eyþórsson
12. Salvör Kristjana Gissurardóttir
13. Svafar Helgason
14. Ævar Rafn Hafþórsson
15. Helga Völundardóttir
16. Þórlaug Ágústsdóttir
17. Birgir Þröstur Jóhannsson
18. Ólafur Jónsson
19. Elías Halldór Ágústsson