Ríkisstjórnin fundar núna í stjórnarráðinu. Samkvæmt heimildum Kjarnans er það til að ákveða möguleg viðbrögð vegna eiturgasárásarinnar í Sailsbury í Bretlandi. Fjöldi Evrópusambandsríkja hafa ákveðið að senda rússneska diplómata úr landi vegna málsins, auk Bandaríkjanna, Kanada og Úkraínu.
Fréttamaður Kjarnans er staddur við stjórnarráðið þar sem þau Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Sigríður Andersen dómsmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir viðskipta- og ferðamálaráðherra eru mætt til fundarins.
Framundan er einnig fundur utanríkisráðherra með utanríkismálanefnd þingsins vegna málsins. Mun hann fara fram klukkan 16.30 í ráðuneytinu og var boðað til fundarins með 45 mínútna fyrirvara samkvæmt heimildum Kjarnans. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, er þegar mætt á þann fund. Það eru Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, og Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, líka. Þau sitja öll í utanríkismálanefnd.
Svíar og Finnar hafa ákveðið að vísa rússneskum diplómötum úr landi vegna eiturgasárásarinnar á gagnnjósnarann Sergei Skripal og dóttur hans í Bretlandi í byrjun mars. Ísland og Noregur eru þar með einu Norðurlöndin sem ekki hafa gripið til formlegra aðgerða vegna málsins, en Danir ákváðu fyrr í dag að vísa tveimur diplómötum úr landi.
Finnar ætla að vísa einum rússneskum erindreka úr landi. Í tilkynningu finnska forsetaembættisins segir að ákvörðunin um að lýsa yfir stuðningi við Breta í deilu þeirra við Rússa hafi verið tekin að vel ígrunduðu máli.
Svíar hafa sömuleiðis ákveðið að vísa einum rússneskum erindreka úr landi. Í yfirlýsingu frá Stefan Löfven forsætisráðherra segir að málið sé mun alvarlegra en bara deila milli Bretlands og Rússlands og nauðsynlegt hafi verið að bregðast við.