Markaðsvirði félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands er nú 798,2 milljarðar íslenskra króna, miðað við lokagengi markaða í dag.
Það er upphæð sem nemur ríflega 30 prósent af árlegri landsframleiðslu sem var um 2.555 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.
Markaðsvirði félaga á aðallista í kauphöllinni hefur farið minnkandi, sé horft fyrir markaðinn í heild undanfarna sex mánuði.
Munar þar mestu um að Össur fór af markaði á Íslandi í desember í fyrra og eru bréf félagsins nú einungis til viðskipta á markaði í Kaupmannahöfn. Össur var um 170 milljarða virði, þegar félagið fór útaf íslenska markaðnum, en danskir hluthafar eru stærstu eigendur þess. Þar stærstur er William Demant Holding, sem á tæplega helmingshlut í félaginu.
Verðmætasta félagið á Íslandi er Marel, en markaðsvirði þess er nú 255 milljarðar króna. Næst verðmætasta félagið er Icelandair en virði þess er rúmlega 70 milljarðar króna.
Ódýrasta félagið er Origo, áður Nýherji, en virði þess er nú 11,2 milljarðar króna.