Samfylkingin er stærsti flokkurinn í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkurinn næst stærsti, samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Samfylkingin fengi átta fulltrúa en Sjálfstæðisflokkurinn sjö.
Tvö ný framboð, Viðreisn og Miðflokkurinn, fá fulltrúa kjörna. Viðreisn fengi tvo fulltrúa, og 7,3 prósent, en Miðflokkurinn 1 fulltrúa og 5 prósent.
VG og Píratar bæta við sig fylgi, en Framsóknarflokkurinn, sem nú hefur tvo borgarfulltrúa, þurrkast út. Núverandi meirihluti í borgarstjórn heldur velli.
Samfylkingin mælist með 31,7 prósent fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn 27 prósent og VG 12,8 prósent.
Fylgi Samfylkingarinnar er nærri óbreytt frá kosningunum 2014. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aukist lítillega miðað við sömu kosningar. Athygli vekur mikill munur á fylgi Samfylkingarinnar annars vegar og Sjálfstæðisflokksins eftir hverfum borgarinnar. Í fimm stórum borgarhlutum er Sjálfstæðisflokkurinn með meira fylgi en Samfylkingin. Fylgið við Sjálfstæðisflokkinn er mest í úthverfunum en við Samfylkinguna í vesturhluta borgarinnar.