Ný könnun Seðlabanka Íslands og Gallup sýnir að stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins telja auknar líkur á því að verðbólga aukist á komandi mánuðum.
Frá þessu er greint í ViðskiptaMogganum, fylgiriti Morgunblaðsins, í dag.
Verðbólga mælist nú 2,8 prósent, en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent. Undir lok síðasta árs höfðu stjórnendur í atvinnulífinu væntingar um það að verðbólgan myndi haldast heldur minni, og að hún yrði um 2,5 prósent. Nú eru væntingarnar um 3 prósent.
Svipaða sögu er að segja að markaðsaðilum, en þeir hafa væntingar um að verðbólgan verði 2,7 prósent næsta árið.
Það sem helst hefur haldið verðbólgu hárri að undanförnu er hátt húsnæðisverð, en styrking krónunnar hefur haldið aftur af hærra verðlagi á innfluttum vörum, og þar með verðbólgu.