Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, segist ekki hafa verið sáttur við hvernig Björt framtíð lauk stjórnarsamstarfinu á sínum tíma. Þetta kom fram í viðtali við Kristján Kristjánsson í viðtalsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Benedikt segir atburðarásina vera dæmi um það þegar fólk missir stjórn á kringumstæðunum vegna reynsluleysis. Hann telur að Viðreisn hefði ekki átt að krefjast kosninga eftir stjórnarslitin, heldur reyna að mynda minnihlutastjórn eða allavega gera hlutina öðruvísi. „Við hefðum átt að ræða hlutina betur við Bjarna [Benediktsson],“ segir hann og bætir við að þau í Viðreisn hafi misst tökin þegar atburðarásin var komin af stað.
Betra hefði verið ef þau hefðu keypt sér tíma, að hans mati, en hann segir að margir möguleikar hafi verið í stöðunni og að þau hefðu átt að láta á það reyna, fyrir stöðugleika í landinu. Benedikt segist þó ekki vita hvort ný stjórn hefði lifað af aðra krísu.
Í viðtalinu talar Benedikt um vinskap hans og Óttars Proppé, fyrrverandi formanns Bjartrar framtíðar, en hann segir að Óttar sé einstakur maður, skemmtilegur og yfirvegaður. „Ég tel að það hafi verið mikil gæfa að kynnast honum og gaman að vinna með honum,“ segir hann og bætir því við að ekki hafi orðið vinslit þegar flokkarnir hættu samstarfi í ríkisstjórn.
Varðandi starfið á þinginu segir Benedikt að honum hafi ekki fundist það sérstaklega skemmtilegt. „Menn eru stöðugt að reyna að klekkja á hver öðrum. Ég á erfitt með að gera lítið úr fólki,“ segir hann. Aftur á móti hafi verið gaman að vera formaður flokks og ráðherra þar sem hann segir að hann hafi haft tækifæri til að koma góðu til leiða. Hann segir jafnframt að inn í þingnefndunum sé unnið gott starf, þar sé ekki þetta leikrit sem á sér stað inn í þingsalnum.