Hagnaður Kerfélagsins, eiganda Kersins í Grímsnesi, var ríflega 58 milljónir króna í fyrra og næstum tvöfaldaðist frá árinu 2016 þegar hann var 30 milljónir. Sé miðað við tekjuaukninguna sem varð á milli áranna 2016 og 2017 þá komu um 240 þúsund gestir í Kerið í fyrra.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Tekjur félagsins 113 milljónum og jukust um meira en 60 prósent á milli ára, að því er fram kemur í nýjum ársreikningi félagsin.
Kerfélagið er í jafnri eigu Óskars Magnússonar, Ásgeirs Bolla Kristinssonar, Jóns Pálmasonar og Sigurðar Gísla Pálmasonar. Gjaldtaka við Kerið hófst sumarið 2013 og er aðgangseyrir þar nú 400 krónur með virðisaukaskatti. Í samtali við Fréttablaðið fyrir ári sagði Óskar, stjórnarformaður Kersins, að um 150 þúsund manns hefðu heimsótt eldgíginn á árinu 2016.