Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í ræðu sinni á 56. ársfundi Seðlabanka Íslands í dag, að nú væri svo komið að frekari hækkun á raungengi krónunnar gæti verið áhættusöm fyrir íslenska hagkerfið.
Krónan hefur styrkst hratt á undanförnum misserum, samhliða örum vexti ferðaþjónustunnar og miklum efnahagslegum umsvifum á Íslandi. Bandaríkjadalur kostar nú 98,95 krónur og evra 121 krónu.
Sem dæmi kostaði Bandaríkjadalur tæplega 140 krónur fyrir þremur árum og evra tæplega 150 krónur. „Búhnykkirnir sem gerðu okkur mögulegt að vaxa hratt og halda verðbólgu lítilli á sama tíma eru nú að fjara út. Hækkun gengis krónunnar átti stóran þátt í að laga þjóðarbúið að þessum búhnykkjum. Seðlabankinn beitti hins vegar inngripum á gjaldeyrismarkaði og sérstakri bindingu á fjármagnsinnstreymi til að koma í veg fyrir ofris krónunnar. Nú er hins vegar svo komið að umtalsverð frekari hækkun raungengis væri áhættusöm,“ sagði Már.
Hann kom víða við í sinni ræðu, og sagði meðal annars að nú væru aðstæður til að taka lokaskrefið við losun fjármagnshafta. „Það er mat Seðlabankans að efnahagslegar forsendur séu til að taka lokaskrefið í losun fjármagnshafta. Það á líka við um aflandskrónur en þær nema nú um 3½% af landsframleiðslu en voru rúm 40% eftir að fjármagnshöft voru fyrst sett á undir árslok 2008. Það verður hins vegar ekki gert nema með lagabreytingu,“ sagði Már.
Seðlabankinn hafi frumkvæði að samstarfi
Í ræðunni kom hann einnig inn á þær miklu breytingar sem nú væri að verða á fjármálaþjónustu, meðal annars með nýjum tæknilausnum og breytingum á regluverki. Hann sagði Seðlabankann ætla að beita sér fyrir auknu samstarfi aðila á vinnumarkaði um þessi mál, með það að markmiði að tryggja yfirsýn og öryggi í fjármálakerfinu. „Ég ætla ekki að bleyta púðrið of mikið hér en vil þó nefna örfá meginatriði sem halda verður til haga í þessari umræðu. Þau eru í fyrsta lagi mikilvægi samtímauppgjörs sem eykur skilvirkni og öryggi. Það hefur einkennt greiðslumiðlun hér á landi í einn og hálfan áratug og þangað eru aðrar þjóðir að reyna að stefna. Það er því lykilatriði að varðveita það í þeim breytingum sem nú standa yfir. Í öðru lagi er það mikilvægi þess að halda aftur af kostnaði í innlendri greiðslumiðlun. Nýjar og fjölbreyttari lausnir sem t.d. vinna beint með grunninnviði fjármálakerfisins eins og innstæður í bönkum og kerfi Reiknistofu bankanna gætu stuðlað að þessu. Í þriðja lagi er það mikilvægi þess að ekki sé hægt að stöðva innlenda greiðslumiðlun í gegnum erlend inngrip af einhverju tagi. Í fjórða lagi er það að til séu varaleiðir í kerfinu ef eitthvað fer úrskeiðis sem gæti kallað á vissa fjölbreytni í greiðslumiðlun sem að hluta nýtti mismunandi tækni. Hér gæti rafkróna m.a. komið til sögunnar. Hún vekur hins vegar stórar spurningar sem þarf að ræða og lúta að möguleikum almennings til að nota rafræna kröfu á Seðlabankann og þar með óbeint á ríkið sem 8 greiðslumiðil í stað innstæðu í bönkum og þær afleiðingar sem það gæti haft á hlutverk og stöðugleika bankakerfisins. Þetta verður spennandi umræða og hún er rétt að hefjast,“ sagði Már.