Ríkissjóður keypti í vikunni eigin skuldabréf af Seðlabanka Íslands samtals að fjárhæð 27 milljarða króna.
Eftir viðskiptin hafa skuldir ríkisins lækkað, og eru heildarskuldir nú 866 milljarðar króna, eða um 32 prósent af árlegri landsframleiðslu. Það er með allra minnsta móti, sé horft til stöðu ríkissjóða víða um heim, en undanfarin ár hefur skuldastaða ríkissjóðs batnað verulega, samhliða sterkari efnahagsstöðu og stöðuleikasamningum við slitabú hinna föllnu banka.
Kaupin voru í skuldabréfaflokkunum RIKH 18, fyrir um 4,7 milljarða að nafnvirði, og í flokknum RIKB 19, fyrir 21,6 milljarða að nafnvirði, en uppgjörið fór fram í dag.
Heildarkaupverð bréfanna nemur því 27,3 milljörðum króna, en kaupin voru fjármögnuð með innstæðum ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands og með lækkun á almennri sjóðsstöðu.
Hrein staða ríkissjóðs reiknuð á grundvelli laga um opinber fjármál, þ.e. þegar sjóðir og innstæður eru dregnar frá heildarskuldum, nemur eftir viðskiptin um 724 milljörðum króna, eða sem nemur um 27% af árlegri landsframleiðslu .
Á undanförnum árum hefur skuldastaða ríkissjóðs styrkst hratt, en hæstar voru skuldirnar, sem hlutfall af landsframleiðslu, skömmu eftir hrun fjármálakerfisins haustið 2008. Á árunum 2009 og 2010 ruku þær upp, en frá þeim tíma hafa þær lækkað, og verulega hratt frá árinu 2012.