Sjálstæðisflokkurinn í Reykjavík ætlar að stytta ferðatíma borgarbúa til og frá vinnu um 20 prósent, fella niður fasteignaskatt á 70 ára og eldri og tryggja öllum börnum leikskóllapláss frá 18 mánaða aldri.
Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi flokksins í morgun sem haldinn var í Iðnó. Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokksins, kynnti kosningaloforðin, sem alls eru sjö.
- 2.000 íbúðir verði byggðar að jafnaði á ári á kjörtímabilinu
- Ferðatími til og frá vinnu styttist um 20%
- Fella niður fasteignaskatt á 70 ára og eldri
- Öll börn fái leikskólapláss við 18 mánaða aldur
- Svifryksmengun fari ekki yfir heilsuverndarmörk
- Reykjavík verði grænasta borg í Evrópu
- Styttum afgreiðslutíma í kerfinu um helming
Í glærukynningu frá fundinum kemur meðal annars fram að bæta eigi Strætó með tíðari ferðum, bættu leiðarkerfi og betri skýlum. Auk þess eigi að nota ljósastýringu til að bæta flæði í umferð. Þá eigi að hækka lægstu launin á leikskólunum og hækka niðurgreiðslu til dagforeldra.
Til að losna við hættulega svifryksmengun ætlar flokkurinn að þrífa borgina oftar og reglulega, sem þau segja vera skítuga, gras ekki slegið og götur og stígar ekki sópaðir.
Þá segir flokkurinn að álögur hafi hækkað á eldri borgara, fasteignaskattar hafi hækkað víða um 50 prósent á fjórum árum og húsnæði fyrir eldri borgara sé dýrara en áður. Styðja eigi við þá eldri borgara sem geta og vilja búa heima, efla heimaþjónustu og létta álögum með því að fella niður skatta á 70 ára og eldri.