„Öll NATO ríkin lýstu yfir fullum stuðningi við aðgerðirnar í gærnótt,“ segir í tilkynningu frá NATO vegna loftárása Bandaríkjanna, Breta og Frakka á Sýrland í nótt.
Bandaríkin, Bretland og Frakkland hófu í nótt hernaðaraðgerðir gegn sveitum Bashars al-Assads Sýrlandsforseta, og virðast skotmörkin hafa verið þrjú. Sergei Rudskoi, rússneskur hershöfðingi sagði á blaðamannafundi í Moskvu að 103 flugskeytum hafi verið skotið að herstöðvunum, en einungis 32 hafi valdið skaða.
Bæði Katrín Jakobsdóttir forsætirsráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa komið sér undan að svara því beint hvort þau styðji árásirnar. Í samtali við RÚV í dag sagði Katrín að þau hafi lagt á það áherslu að ná samstöðu innan öryggisráðsins um aðgerðir sem grípa ætti til. Árásirnar hafi verið viðbúnar fyrst ekki sú samstaða náðist ekki í vikunni.
Katrín sagði Vinstri græn alltaf hafa talað fyrir friðsamlegum lausnum og geri enn. Þegar Katrín var enn spurð hvort hún styðji árásirnar, svaraði hún: „Við höfum ekki lýst sérstökum stuðningi við þessar aðgerðir, ríkisstjórnin, en við höfum sagt að þær hafi verið viðbúnar.“
Guðlaugur skrifaði á Twitter-síðu sína í morgun að hófstilltar og markvissar aðgerðirnar væru skiljanlegar í ljósi aðgerðarleysis öryggisráðsins. Í hádegisfréttum RÚV var Guðlaugur spurður hvort Ísland ætli að lýsa yfir stuðningi við aðgerðirnar. Hann svaraði því til að staðan yrði rædd hjá NATO í dag og síðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. „Við höfum sett mjög skýr skilaboð eins og fram hefur komið í dag en við eigum eftir að sjá hvernig þessi mál þróast.“
We must seek a political solution in #Syria & ease suffering of civilians. Calling for greater efforts by #UNSC in response to #Douma. Use of #chemicalweapons should never be tolerated. Restrained and targeted attack by US, UK & France understandable in light of #UNSC inaction.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) April 14, 2018
Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna lýsti yfir sérstakri ánægju með það í dag að að ríkisstjórn Íslands hafi ekki lýst yfir stuðningi við árásina. „Þrjú ríki taka sig til og gera árás á það fjórða, ákvörðun tekin framhjá öllum alþjóðastofnunum. Ég mun aldrei styðja slíka aðgerð. Ég er friðarsinni og styð ekki stríð,“ skrifaði Kolbeinn á Facebook síðu sína.
Hörmulegar fregnir frá Sýrlandi. Þrjú ríki taka sig til og gera árás á það fjórða, ákvörðun tekin framhjá öllum...
Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Saturday, April 14, 2018