Þrátt fyrir mikla uppbyggingu húsnæðis og mikla vöntun á íbúðum, samkvæmt greiningum sérfræðinga, þá hefur meiri ró færst yfir þróun fasteignaverðs að undanförnu heldur en hefur verið árin á undan.
Fasteignaverð lækkaði um 0,1 prósent í mars, en á sama tíma hækkaði leiguverð um 2,1 prósent, samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá Íslands.
Árleg hækkun fasteignaverðs, að teknu tilliti til verðlagsþróunar, nemur nú 4,8 prósentum, en til samanburðar þá nam hækkunin 24 prósentum á milli áranna 2016 og 2017. Það var þá mesta árlega hækkun sem mældist í öllum þróuðum ríkjum heimsins.
Árshækkun leiguverðs nemur nú um 10 prósentum að nafnvirði, og er því töluvert umfram hækkun fasteignaverðs. Það er í fyrsta skipti síðan í nóvember 2014 sem það gerist, samkvæmt tilkynningu Íbúðalánasjóðs.
Mikil uppbygging á sér stað þessi misserin á höfuðborgarsvæðinu, en gert er ráð fyrir því að um 10 þúsund nýjar íbúðir komi út á markað á næstu þremur árum.