Hagnaður Eyris Invest nam 110 milljónum evra í fyrra, jafnvirði tæplega 14 milljarða króna, samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2017.
Stærsta eign félagsins er 25,8 prósent hlutur í Marel, en hann er nú virði tæplega 70 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var 66 prósent í árslok.
Markaðsvirðið á Marel hefur hækkað nokkuð að undanförnu, en virði félagsins er nú 267 milljarðar króna.
Eyrir Invest á einnig hluti í Eyri Sprotum, sem fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Samtals á það félag nú í 10 sprotum.
Eignarhlutfall félagsins í Eyri Sprotum er 43 prósent.
Stærstu eigendur Eyris Invest eru feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur þórðarson, en samanlagður eignarhlutur þeirra er 35 prósent. Þórður á 19 prósent og Árni Oddur 16 prósent hlut. Landsbankinn á hins vegar stærsta einstaka hlutinn, eða 22 prósent. Landsbankinn er 98 prósent í eigu íslenska ríkisins.
Þórður er stjórnarformaður Eyris, en aðrir stjórnarmenn eru Ása Ólafsdóttir, Hreiðar Bjarnason, Jón Helgi Guðmundsson, Sigurjón Jónsson, Dr. Ólafur Steinn Guðmundsson og Ingólfur Guðmundsson.