Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður og stofnandi Miðflokksins, var í dag endurkjörinn formaður flokksins á fyrsta landsþingi hans með öllum greiddum atkvæðum. Hann var einn í framboði.
Gunnar Bragi Sveinsson, sem fylgdi Sigmundi Davíð úr Framsóknarflokknum og yfir í Miðflokkinn, og er nú þingflokksformaður hans, var kjörinn fyrsti varaformaður flokksins. Hann atti kappi við Birgi Þórarinsson, þingmann Miðflokksins, um embættið en Gunnar Bragi tilkynnti um framboð sitt skömmu áður en landsþingið hófst.
Anna Kolbrún Árnadóttir var kjörin annar varaformaður Miðflokksins.
Miðflokkurinn var stofnaður skömmu fyrir síðustu kosningar eftir að Sigmundur Davíð, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra frá 2013 til 2016, ákvað að yfirgefa Framsóknarflokkinn eftir miklar innanflokksdeilur. Miðflokknum gekk vel í kosningunum 2016 og fékk 10,9 prósent atkvæða, sem er það mesta sem nýtt framboð hefur nokkru sinni fengið í fyrstu kosningum sínum.
Vilja RÚV af fjárlögum
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að Miðflokkurinn vilji að RÚV verði tekið af fjárlögum og að ríkisfjölmiðillinn fjármagni sig einvörðungu með áskriftarsölu og á auglýsingamarkaði. Þá vill flokkurinn einnig að virðisaukaskattur á áskriftum fjölmiðla verði afnumin. Þetta er meðal þess sem kemur fram í landsfundarályktunum flokksins.
Flokkurinn vill auk þess að lögreglumönnum verði fjölgað út um allt land, að regluverk atvinnulífsins verði einfaldað og að lagt verði áherslu á uppbyggingu hugvitsgreina. Miðflokkurinn vill tafarlaust afnema skerðingar lífeyris krónu á móti krónu, setja þak á vexti af nýjum verðtryggðum lánum, taka húsnæðisliðinn út úr neysluvísitölunni og heimila áfram að nýta séreignasparnað til að greiða inn á húsnæðislán.
Miðflokkurinn leggur sérstaka áherslu á endurskipulagningu fjármálakerfisins. Í ályktuninni segir að ljúka skuli „endurskipulagningu fjármálakerfisins með það að markmiði að lækka vexti og laga kerfið að þörfum fólks og fyrirtækja. Bankarnir verði minnkaðir með því að greiða úr þeim umfram eigið fé í ríkissjóð. Landsbankinn verði látinn leiða þá vinnu þar sem m.a. verði stofnaður nýr hagkvæmur netbanki sem láni til einstaklinga og fyrirtækja á bestu kjörum.“
Þá vill flokkurinn að Fjármálaeftirlitið verði sameinað Seðlabankanum og að almenningi verði færður hlutur í banka í eigu ríkisins, en það var helsta kosningaloforð Miðflokksins fyrir kosningarnar 2017.