Íslenska sprotafyrirtækið Kúla sem framleiðir þrívíddarlinsur fyrir myndavélar hefur lokið fyrstu fjármögnun félagsins en það hefur hingað til verið rekið meðal annars á styrkjum frá Tækniþróunarsjóði og sölu á þrívíddarlinsum fyrir stórar myndavélar.
Helga Viðarsdóttir sá um fjármögnunina sem nemur um 30 milljónum króna.
Þrívdíddarlinsa fyrir farsíma
Kúla er nú að gefa út Kúlu Bebe, þrívíddarlinsu fyrir snjalltæki. Tækið gefur hverjum sem er kost á að taka myndir og myndbönd í þrívídd og með fylgja einfaldar lausnir með til að skoða afraksturinn.
Stuðningsmenn á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter hafa beðið vörunnar með eftirvæntingu í yfir 2 ár. Tækið er þróað og framleitt á Íslandi í nánu samstarfi við Vélvík sem býr yfir heimsklassa framleiðslutækjum og framleiðsluþekkingu. Þar voru mótin fyrir tækin smíðuð og síðan sprautusteypt.
Tækjunum er púslað saman og pakkað á lítilli skrifstofu Kúlu í Innovation House á Eiðistorgi. Þessi fyrsta framleiðsla kemur í takmörkuðu upplagi. Íslendingar fá þó tækifæri til að eignast eintak því Kúla Bebe kemur fyrst í sölu á Íslandi og er núþegar fáanlegt í verslunum Vodafone, en opnað verður á alþjóðlega sölu með vorinu.
Íris Ólafsdóttir stofnandi Kúlu er með þá sýn að fólk verði að fá að uppgötva töfra eigin þrívíddarmynda. ,,Ég verð fyrir hughrifum í hvert einasta sinn sem ég skoða gamlar þrívíddarmyndir af dóttur minni, hún var tveggja ára þegar ég fór að prófa mig áfram með fyrstu frumgerð og þetta er eins og að stíga inn í tímavél. Ég fæ ennþá þessa ‚vá‘ tilfinningu, það er eins og maður finni fyrir nærverunni. En fólk verður að prófa til að skilja,“ segir Íris.