Efla skal landamæravörslu og greiningarstarf löggæslustofnana og getu innanlands til rannsókna meðal annars á sviði erfðafræði. Meta þarf ávinninginn af Schengen-samstarfinu með hagsmuni Íslands í öndvegi og taka upp virkt vegabréfaeftirlit.
Þetta kemur fram í ályktunum landsþings Miðflokksins um stefnu flokksins sem haldið var um síðustu helgi.
Enn fremur vill flokkurinn stofna erfðamengisstofnun á Íslandi. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, segir í samtali við Kjarnann að hann geri ráð fyrir því að tilgangur slíkrar stofnunar væri að efla rannsóknir lögreglu innanlands. Sýni séu til að mynda að einhverju leyti send út í góðu samstarfi en það þurfi að vera hægt að ljúka DNA-rannsóknum hér innanlands.
„Stórefla skal fjárframlög til lögreglu til að hægt sé að halda uppi öflugri löggæslu um allt land og tryggja öryggi borgaranna. Fjölga skal lögreglumönnum um land allt og starfsumhverfi þeirra á að endurspegla nútíma kröfur um þjálfun, búnað og þekkingu. Tryggja skal lögreglunámi fé til að geta uppfyllt kröfur um fjölda lögreglumanna,“ segir í ályktuninni.
Flokksmenn Miðflokksins vilja jafnframt auka eftirlit við komustaði til landsins. Öryggiseftirlit og tollgæsla þurfi að vera virk um allt land svo hægt sé að ná árangri. Netöryggi og persónuvernd þurfi enn fremur að tryggja og regluverk þar að lútandi þurfi að vera skýrt.
„Stytta skal biðtíma fanga eftir afplánun Auka þarf úrræði eins og samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit til að auka möguleika fangelsisstofnana til að styðja fanga til betrunar. Leggja þarf aukna áherslu á eftirfylgni við fanga og fjölskyldur þeirra, fyrir, á meðan og eftir að afplánun er lokið. Dómarar skulu ákvarða um reynslulausn, ekki fangelsismálastofnum.
Sami ráðherra skal ekki skipa bæði lögreglustjóra og dómara.“