Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að það sé algjörlega óásættanlegt að heimaþjónusta við sængurkonur og nýbura liggi niðri þar sem samningur ljósmæðra við Sjúkratryggingar rann út.
Þær hafa unnið sjálfstætt sem verktakar á grunni samningsins. Eins og kunnugt er hafa ljósmæður átt harðri baráttu um kjarabætur undanfarna mánuði, en ekki hefur tekist að ná saman við Sjúkratryggingar Íslands vegna fyrrnefndrar þjónustu.
Í pistli á heimasíðu Landspítalans segir Páll að hann geti ekki lagt nægilega þunga áherslu á að samningar náist. „Í byrjun vikunnar hættu ljósmæður sem sinnt hafa heimaþjónustu við sængurkonur og nýbura þeirri þjónustu í kjölfar þess að samningur þeirra við Sjúkratryggingar Íslands er runninn út og ekki hefur samist að nýju. Ég get ekki lagt nægilega þunga áherslu á að samningar náist hið allra fyrsta. Þjónusta ljósmæðra við fjölskyldur í heimahúsum er afar mikilvægur þáttur í viðkvæmri þjónustukeðju sem nú hefur verið rofin. Við höfum við þessar aðstæður hafið samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins um breytta en skerta þjónustu við þennan hóp. Það er ekki ásættanlegt, hvorki til lengri né skemmri tíma. Semjið!,“ segir Páll í pistli sínum.