Gray Line á Íslandi hefur ákveðið uppsagnir um 15 starfsmanna fyrir næstu mánaðamót vegna samdráttar í verkefnum, þar sem ákveðið hefur verið að hætta með áætlunarferðir í Bláa Lónið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Um er að ræða um 5 prósent af starfsmannafjöldanum, bílstjóra og starfsfólk í farþegaafgreiðslu. Þetta er í fyrsta skipti í 30 ára sögu félagsins sem bregðast þarf við samdrætti með uppsögnum, segir í tilkynningunni.
Segir enn fremur í tilkynningunni að áætlunarferðir Gray Line í Bláa lónið hafi verið ein af meginstoðum afþreyingarferða fyrirtækisins í 20 ár. Gray Line hafi kynnt Bláa lónið í markaðsstarfi sínu um allan heim og flutt hundruð þúsunda viðskiptavina baðstaðarins þangað. Árum saman hafi aðsókn í Bláa lónið byggst að mestu leyti á samstarfi við ferðasöluaðila víðsvegar um heiminn, sem hafa verið að selja áætlunarferðir með Gray Line og fleiri hópferðafyrirtækjum.
„Eigendur Bláa Lónsins hafa sagt upp samkomulagi við Gray Line um sölu á baðgjaldi í lónið frá 1. apríl síðastliðnum og nýtt samkomulag er ekki í boði. Algjör forsenda þess að geta boðið áætlunarferðir í Bláa Lónið er að viðskiptavinir geti um leið keypt baðgjald.
Ákvörðun Bláa Lónsins kom að vissu leyti ekki á óvart í ljósi þess að rútufyrirtæki í eigu hluthafa Bláa Lónsins hefur tekið við áætlunarferðum þangað. Þessi eigendahópur virðist hafa sammælst um að losa sig við samkeppnina til að skapa rými fyrir eigið fyrirtæki í þessum ferðum. Það er áhyggjuefni að eigendasamþjöppun af þessu tagi með tilheyrandi samkeppnishindrunum skuli vera að raungerast með svo ógagnsæjum hætti. En það er ný samkeppnisáskorun sem þarf þá að takast á við,“ segir í tilkynningunni.
Jafnframt þykir ljóst að Gray Line þurfi að bregðast við með því að draga úr vöruþróun og nýsköpun, sem hefur snúist um að byggja upp nýja ferðamöguleika og stuðla að dreifingu ferðamanna.
„Gray Line hefur nær eingöngu sinnt eigin hópferðum og ekki tekið þátt í útleigu á hópferðabifreiðum nema að óverulegu leyti. Takmarkaður grundvöllur er fyrir því að mæta samdrættinum með aukinni útleigustarfsemi. Sá markaður breyttist verulega frá og með árinu 2016, þegar virðisaukaskattur var lagður á þessa starfsemi. Við það kom mikil samkeppni með undirboðum frá erlendum hópferðafyrirtækjum. Þessi fyrirtæki koma með hópferðabíla sína til landsins, sniðganga skatta og gjöld og fara ekki eftir íslenskum kjarasamningum. Kostnaður þeirra er þar af leiðandi mun lægri en hjá íslensku fyrirtækjunum sem standa skil á sköttum og gjöldum samkvæmt íslenskum lögum og reglum. Getuleysi stjórnvalda til að taka á þessum undirboðum og lögbrotum er algjört, sem og í fleiri sambærilegum málum er varða erlenda samkeppni í ferðaþjónustunni.
Óhjákvæmilegt er að sveiflur verði þegar mikil samkeppni ríkir. Gray Line þykir leitt að þurfa að segja upp starfsfólki til að mæta samdrættinum, en í ljósi gróskunnar í ferðaþjónustunni er ekki að efa að flestir eða allir verði komnir til starfa annars staðar innan tíðar. Uppsagnarfrestur þeirra er frá einum til þriggja mánaða.“
Í niðurlagi tilkynningarinnar segir að þrátt fyrir þennan afturkipp séu eigendur og stjórnendur Gray Line bjartsýnir á framtíðina og líti svo á að í öllum áskorunum felist tækifæri sem félagið mun nýta sér.