Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar er nú í undirbúngi stofnun félags sem mun halda utan um stórframkvæmdir í vegamálum.
Markmiðið með þessu er að flýta framkvæmdum í vegamálum þar sem til greina kemur að fá fjárfesta að verkefnunum, þar á meðal lífeyrissjóði.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en nákvæm útfærsla er eftir. „Í nýframkvæmdum í vegamálum höfum við gert alltof lítið of lengi. Verkefnin sem nú bíða eru það stór að hefðbundnar fjárveitingar í gegnum fjárlög duga ekki. Ég hef talað fyrir því að við skoðum nýja möguleika við fjármögnun í samgöngumálum og að stofna sérstakt félag um það er hluti af undirbúningi,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við Morgunblaðið.
Ráðherra hefur átt samtal að undanförnu við fulltrúa lífeyrissjóða og fleiri um að koma að þessum verkefnum og þar er áhugi fyrir hendi.
Um einstaka framkvæmdir sem þessi fjármögnun gæti náð til nefnir ráðherrann til dæmis nýja Ölfusárbrú ofan við Selfoss, nýjan heilsársveg yfir Öxi og nýjan veg um Mýrdal og Sundabraut. Allt eru þetta verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun næstu fimm til sjö ára.
„Þau gætu þó þurft að bíða lengi enn nema sértæk fjármögnun komi til, enda má áætla að kostnaður við þau sé 100 til 150 milljarðar króna. Má þar nefna að sú framkvæmd ein að tvöfalda stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes er metin á um 60 milljarða króna,“ segir í Morgunblaðinu.