Rekstrarskilyrði hótela eru allt önnur og miklu verri en þau hafa verið síðustu ár. Þetta segir Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keahótela, í samtali við Fréttablaðið í dag.
Hann segir rekstrarskilyrði hótela, einkum á landsbyggðinni, vera miklu verri, vegna sterkari krónu og að útlitið sé allt annað og verra en það var í fyrra. „Þau eru svolítið óvenjuleg og allt öðruvísi en þau voru á sama tíma fyrir ári og síðustu ár,“ segir Páll og bætir við að sérstaklega eigi þetta við um rekstur hótela á landsbyggðinni. „Við erum að horfa upp á eitt lakasta vor síðustu fimm ára eða svo,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.
Það vanti fleiri hópa sem ferðaþjónustufyrirtæki hafi verið að koma með um landið. „Hópferðir um landið frá Mið- Evrópu. Þær eru ekki svipur hjá sjón og þær hafa verið uppistaðan í rekstri landsbyggðarhótelanna,“ segir Páll, og nefnir að einkum sé það sterk króna sem sé vandamálið. „Eins og gengið er núna þá er það ferðþjónustunni sérlega óhagstætt. Það er ekki nokkur spurning.“
Þrátt fyrir að staðan sé ekki eins góð í ferðaþjónstunni nú, eins og hún hefur verið undarfarið ár, þá benda flestar spár til þess að vöxtu verið áframhaldandi í ferðaþjónustu á þessu ári. Í fyrra komu um 2,3 milljónir ferðamanna til Íslands, en á þessu ári gæti fjöldinn verið um 2,6 milljónir, gangi spá greinenda eftir.