Þörf er á því að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi með því að opna hann betur fyrir litlum fyrirtækjum, endurvekja traust almennings á honum með fræðslustarfi til almennings, aðkomu fleiri fjárfesta og stjórnvalda.
Kallað er eftur samstarfi um þessi mikilvægu atriði, í nýrri skýrslu frá Kauphöll Íslands.
Þó íslenski hlutabréfamarkaðurinn sé með þeim minnstu í veröldinni, þá gegnir hann mikilvægu hlutverki í íslensku efnahagslífi, og með því að horfa til fyrirmynda erlendis, meðal annars í Svíþjóð, þá mætti styrkja umgjörðina um fjármagnsmarkaði og gera litlum fyrirtækjum mögulegt að sækja sér áhættufjármagn á jafnréttisgrundvelli.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í fyrrnefndri skýrslu, sem ber yfirskriftina: Hugsum hlutabréfamarkaðinn upp á nýtt.
Í skýrslunni er ekki síst einblínt á það, að mikilvægt sé að fá lítil fyrirtæki, sem eru í vaxtarfasa, til að nýta sér hlutabréfamarkaðinn. „Sprotafyrirtæki og önnur smá og millistór fyrirtæki (SMEs) eru drifkraftur hagvaxtar og atvinnusköpunar. Þetta hefur mikið verið rannsakað í bæði Bandaríkjunum og Evrópu. Tvö af hverjum þremur nýjum störfum sem urðu til á árinu 2015 innan Evrópusambandsins mátti rekja til smárra og millistórra fyrirtækja,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Svíar í sérflokki
Skráning fyrirtækja á hlutabréfamarkað hefur verið dræm á heimsvísu frá alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008, að því er segir í skýrslunni, en Norðurlöndin hafa þó skorið sig úr í þeim efnum. Sérstaklega hafa Svíar verið duglegir að nýta sér skráðan markað, en metfjöldi fyrirtækja var skráður á aðalmarkað Nasdaq í Stokkhólmi í október í fyrra, eða 319 talsins.
Innlend félög fyrst og fremst
Í hinum endurreista hlutabréfamarkaði á Íslandi eru nú sextán félög, en uppistaðan eru innlend félög sem starfa á íslenskum markaði, fyrst og fremst. Félög í alþjóðlegri starfsemi eru þó stærst, og er Marel með langsamlega hæsta verðmiðann, eða 262 milljarða króna, en heildarmarkaðsvirði er tæplega 800 milljarðar króna.
Á First North markaðnum eru fimm félög, og segir í skýrslu kauphallarinnar að fleiri smærri fyrirtæki ættu að geta nýtt sér kosti hans.
Kauphöllin hefur skilgreint mikilvæg atriði sem geta skipt töluverðu máli fyrir öflugri uppbyggingu á hlutabréfamarkaðnum og geta „leikið mikilvægt hlutverk í því að styðja við vöxt og framgang fyrirtækja og fjárfesta“ eins og segir í skýrslunni. „Hugsa þarf hlutabréfamarkaðinn upp á nýtt og skapa betra vistkerfi á honum. Kallað er eftir samstarfi við breiðan hóp hagsmunaðila; stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, fjárfesta, markaðsaðila og fleiri. Skilvirkur fjármálamarkaður einkennist ekki síst af virkum hlutabréfamarkaði, þar sem fjármagni er úthlutað þangað sem það nýtist best. Með öflugum hlutabréfamarkaði er fyrirtækjum gert kleift að sækja sér áhættufjármagn í krafti gagnsæis og jafnræðis meðal fjárfesta, til þess að fjármagna spennandi verkefni, nýsköpun og vöxt í efnahagslífinu. Aðgangur að slíku fjármagni getur skipt smærri fyrirtæki sérstaklega miklu máli,“ segir í skýrslunni.