Ljósmæður og samninganefnd ríkisins, verða að koma fram með útspil á fundi í dag, til að reyna að höggva á þann hnút sem kjaradeilan er nú í. Þetta sagði Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, í viðtali við RÚV.
Þrátt fyrir fundarhöld í deilunni þá hefur ekki gengið að ná saman.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í fréttum RÚV á laugardag að kröfur ljósmæðra væru um tuttugu prósentum hærri en ríkisvaldið sé tilbúið til að verða við.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagðist bæði reið og sorgmædd yfir þessum ummælum Bjarna, en kröfur ljósmæðra eða viðmið samninganefndar hafa ekki verið nákvæmlega útlistaðar opinberlega.
Í frétt RÚV í gær, kom fram að samkvæmt upplýsingum frá Ljósmæðrafélaginu eru byrjunarlaun ljósmæðra á Landspítalanum um fjögur hundruð og sextíu þúsund krónur. Meðaldagvinnulaun eru rúmlega 570 þúsund.