„Við þjónustufulltrúar Hörpu þökkum kærlega fyrir þann stuðning sem við fengum frá almenningi á vefmiðlum og í fjölmiðlum vegna kjarabaráttu okkar. Sérstakar þakkir fá tækni- og sviðsmenn Hörpu fyrir stuðningsyfirlýsinguna og viljum við gjarnan nota tækifærið til að hvetja þá í sinni baráttu sem er löngu tímabær.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þjónustufulltrúum í Hörpu, sem sögðu upp störfum sínum í mótmælaskyni, vegna launahækkunar forstjórans, Svanhildar Konráðsdóttur. Hún hefur óskað eftir því að hækkunin verði dregin til baka, og vill að friður skapist um Hörpu og starfsemi hússins. Samtals sögðu um 20 fulltrúar upp, eftir fund með forstjóranum.
Í yfirlýsingunni er sérstaklega þakkað fyrir stuðning frá VR, en Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði félagið ætla að hætta að skipta við Hörpu. Óánægja var með hækkun forstjórans, en stutt er síðan starfsfólk tók á sig launalækkun til að ná betri tökum á rekstrinum.
„Við getum tekið undir hvert orð sem þar kom fram og vonumst til að yfirmenn þeirra taki á þeim málum með faglegum og sanngjörnum hætti. Ennfremur þökkum við Ellen Kristjánsdóttur tónlistarkonu fyrir hvatninguna. Síðast en ekki síst viljum við þakka VR fyrir stuðningsyfirlýsinguna og að bregðast við með afgerandi hætti. Sá stuðningur var ómetanlegur,“ segir í yfirlýsingunni.