Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram frumvarp til breytinga á tollalögum. Annars vegar er í frumvarpinu kveðið á um að tollar á innfluttri móðurmjólk verði felldir niður.
Þetta kemur fram í frétt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Greint er frá því að tilefni þessarar breytingar sé nýlegt erindi frá vökudeild Landspítalans vegna innflutnings frá Danmörku á móðurmjólk handa fyrirburum. „Landspítalinn hefur flutt slíka mjólk inn frosna með hraðpósti og þurft að greiða toll af þeim innflutning. Áætlað er að árlegur tekjusamdráttur ríkissjóðs verði um 37 þúsund krónur á ári verði frumvarpið að lögum,“ segir í fréttinni.
Hins vegar sé í frumvarpinu kveðið á um að hraðað verði innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings á upprunatengdum ostum.
„Samkvæmt tollasamningum Íslands og Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að á næstu þremur árum verði tollkvóti fyrir upprunatengda osta aukinn um 70 tonn á ári eða alls 210 tonn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aukningin komi að fullu til framkvæmda á þessu ári til hagsbóta fyrir íslenska neytendur.“