Mikill meirihluti kjósenda Miðflokksins og Flokks fólksins telur að of miklum fjölda flóttafólks sé veitt hæli á Íslandi eins og staðan er í dag. Alls telur 70 prósent kjósenda Flokks fólksins að of mörgum sé veitt hér hæli og 58 prósent kjósenda Miðflokksins. Tæpur þriðjungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins telur of marga flóttamenn fá hæli eða 32 prósent og 55 prósent telur fjöldann hæfilegan. Þetta kemur fram í nýlegri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 2. til 12. mars 2018.
Aðeins sex prósent kjósenda Viðreisnar telja að hér fái of margir flóttamenn hæli og telja 50 prósent þeirra að fjöldinn sé of lítill. Aðeins 8 prósent kjósenda Samfylkingarinnar telja flóttamenn sem hér fá hæli of marga og aðeins 9 prósent kjósenda Pírata.
Nær helmingur landsmanna eða 44,9 prósent taldi að fjöldi þess flóttafólks sem veitt er hæli á Íslandi væri nægilegur. Alls töldu 29,4 prósent svarenda of lítinn fjölda flóttamanna fá hælisveitingu á Íslandi en 25,7 prósent kváðu of mikinn fjölda flóttafólks fá hæli á landinu.
Afstaða gagnvart hælisveitingum til flóttafólks hafði lítið breyst frá skoðanakönnun MMR sem framkvæmd var í febrúar 2017, þar sem 24 prósent svarenda sögðu fjölda flóttafólks sem veitt er hæli á Íslandi vera of mikinn, 45 prósent sögðu fjöldan hæfilegan og 31 prósent sögðu fjöldan of lítinn. Hlutföll svarenda í öllum hópum helst nær óbreytt á milli ára og eru innan 95 prósenta vikmarka.
Nokkurn mun má sjá á afstöðu eftir búsetu en 36 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins töldu hælisveitingar til flóttafólks vegar ófullnægjandi, samanborið við 33 prósent íbúa landsbyggðarinnar. Landsbyggðarbúar voru hins vegar líklegri til að segja hælisveitingar nægjanlegar, 54 prósent, heldur en svarendur af höfuðborgarsvæðinu, 40 prósent.
Mun var einnig að finna þegar litið var til menntunar svarenda en háskólamenntaðir voru nokkuð líklegri til að telja fjölda flóttafólks sem veitt er hæli vera of lítinn eða 45 prósent, samanborið við svarendur sem lokið höfðu námi eftir útskrift úr grunn- (23 prósent) eða framhaldsskóla (21 prósent). Þá voru einstaklingar í lægri tekjuhópum líklegri til að telja of mikinn fjölda flóttafólks fá hæli á Íslandi heldur en svarendur úr hærri tekjuhópum.