Þrír íslenskir hlutabréfasjóðir eru með betri ávöxtun heldur en sem nemur vísitölu íslenska hlutabréfamarkaðarins, undanfarið ár, en óhætt er að segja að mikill slappleiki sé nú á íslenskum hlutabréfamarkaði.
Vísitala aðalmarkaðarins hefur lækkað um 8,6 prósent á undanförnu ári, en sé litið til íslenskra hlutabréfasjóða, og ávöxtunar þeirra á undanförnum tólf mánuðum, þá hefur hún verið mismunandi.
Samkvæmt samantekt Keldunnar, yfir ávöxtun sjóða, þá hefur hlutabréfasjóður Akta sjóða, sem nefnist Akta stokkur, verið með bestu nafnávöxtunina undanfarið ár eða mínus 1,21 prósent.
Tveir sjóðir til viðbótar eru með betri ávöxtun en sem nemur vísitölunni, en það eru Júpíter innlent, með mínus 5,5, og Stefnir ÍS 15, með mínus 6,6.
Aðrir sjóðir, sem gefnir eru upp með ávöxtun á lista Keldunnar, eru með verri ávöxtun en 8,6 prósent. Verstu ávöxtunina er GAMMA Equity með, eða mínus 17 prósent, sé mið tekið af stöðunni eins og hún var 11. maí síðastliðinn.
Stærð sjóðanna er afar mismunandi, eins og eignasametningin. Stærstur er Stefnir ÍS 15, með um 21 milljarð.