Eyþór Arnalds verður fyrsti gestur Sjónvarps DV þegar það hefur göngu sína klukkan 13 í dag. Frá þessu greinir Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri útgáfufélags DV, í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun.
Þar segir Karl, sem er fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og var um tíma þingmaður Framsóknarflokksins, að nýr kafli sé að hefjast í sögu fyrirtækisins Frjálsrar fjölmiðlunar með sjónvarpsstarfseminni. „Boðið verður upp á viðtöl við skemmtilegt og áhugavert fólk og verður sent út á netinu á forsíðu dv.is.“
Frjáls fjölmiðlun keypti í fyrrahaust fjölmiðlanna Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN hefur síðan verið sett í þrot.
Samkvæmt tilkynningu sem send var út á sínum tíma var kaupverðið fyrir þessa miðla Pressunnar á sjötta hundrað milljónir króna. Greitt var fyrir miðlanna með reiðufé auk yfirtöku skulda. Ekki hefur verið opinberað hvernig Frjáls fjölmiðlun er fjármögnuð en lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson er skráður forsvarsmaður fyrirtækisins.
Miðlarnir voru keyptir af félaginu Pressunni en og hluti skulda hennar voru skildar eftir þar. Pressan var svo tekin til gjaldþrotaskipta í lok síðasta árs.
Umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á starfseminni að undanförnu. Vefsíður miðla fyrirtækisins voru uppfærðar fyrr á þessu ári þannig að þær hafa allir sama útlit.